Íslenski boltinn

Nik Ant­hony von­svikin með dómarana: „Þurfa bara að fara í jörðina og öskra“

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Nik Chamberlain, er þjálfari meistaraflokks Þróttar.
Nik Chamberlain, er þjálfari meistaraflokks Þróttar. Mynd/Þróttur

„Ég er mjög stoltur af stelpunum. Þær lögðu sig alla fram og börðust af krafti og þetta var í raun bara 50-50 leikur að stærstum hluta,“ sagði Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar, eftir 3-1 tap gegn Val á Hlíðarenda í kvöld.

Nik Anthony var þó ekki jafn ánægður með dómara tríóið og vandaði þeim ekki kveðjuna.

„Það voru margar hræðilegar ákvarðanir hjá dómurunum í dag. Í hvert sinn sem þær féllu niður þá fengu þær aukaspyrnu. Stundum liðu jafnvel 2-3 sekúndur þangað til hann blés í flautuna þannig ég var mjög vonsvikin með frammistöðu dómarana í kvöld,“ sagði Nik og hélt áfram.

„Þær þurftu bara að fara í jörðina og öskra og hann keypti það alltaf. Í fyrsta markinu sem dæmi var sparkað tvisvar í hælin á Morgan en einhvernvegin er dæmt á okkur. Boltinn fer á hin enda vallarsins og þær fá vítaspyrnu,“ sagði Nik og segist ekki hafa upplifað annað eins áður.

„Þetta drap taktinn í leiknum. 50/50 og lykil ákvarðanir féllu alltaf með þeim. Ég vil samt ekki taka neitt frá Val og þær áttu líklegast sigurinn skilið heilt yfir,“ sagði Nik og segir fulla ástæðu til bjartsýni fyrir fallbaráttuna sem framundan er hjá Þrótt.

„Við verðum að halda áfram að spila eins og við gerðum í dag. Við verðum að bæta okkur í ákvörðunartökur þegar við komumst á síðasta þriðjung vallarsins en með svona baráttu og kraft þá eigum við að geta haldið okkur í deildinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×