Sport

Sara Sigmunds: Kveikti virkilega í mér að sjá þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir ætlar sér stóra hluti á heimsleikunum í ár.
Sara Sigmundsdóttir ætlar sér stóra hluti á heimsleikunum í ár. Mynd/Instagram

Sara Sigmundsdóttir er á fullu að undirbúa sig fyrir heimsleikana og þá var gott fyrir hana að sjá síðu heimsleikanna rifja það upp þegar Sara stimplaði sig inn sem þriðja íslenska drottningin á heimsleikunum.

Þegar CrossFit heimurinn hélt að litla Íslands ætti bara tvær CrossFir drottningar í allra fremstu röð þá mætti sú þriðja til leiks með stæl. Heimsleikarnir fyrir fimm árum voru eftirminnilegir fyrir margar sakir.

Það er innan við mánuður í heimsleikana í CrossFit og forráðamenn leikanna eru duglegir við að rifja upp eftirminnilegar stundir frá leikunum á síðustu árum. Ísland hefur átt marga frábæra keppendur og kemur því oft fyrir í slíkum upprifjunum.

Það á einnig við um þá sem birtist í gær.

„Ertu nokkuð búinn að gleyma þegar þú sást Söru Sigmundsdóttur fyrst?“ Svo byrjar ný færsla á Instagram síðu heimsleikanna í CrossFit.

Sara Sigmunsdóttir skaust fram í sviðsljósið á heimsleikunum fyrir fimm árum síðan með frábærri frammistöðu sinni í grein á föstudagskvöldinu á heimsleikunum 2015. Sara pakkaði öllum hinum stelpunum saman og tók um leið forystuna í keppninni.

Þetta var fimmta greinin á leikunum og Sara hafði best náð fjórða sætinu í fyrstu fjórum. Hún varð níunda í bæði þriðju og fjórðu greininni.

CrossFit samfélagið fékk að hafa áhrif á æfinguna og þar var kosið um að hækka þyngdina á stönginni úr 105 pundum í 144 pund hjá konunum sem jafngildir því að fara úr 47 kílóum í rúm 65 kíló.

Sara sýndi styrk sinn með því að rústa þessari æfingu og það með bros á vör.

Sara endaði á því að klára æfinguna á 8 mínútum og 25 sekúndum. Hún var næstum því 54 sekúndum á undan næstu konu sem var landa hennar Katrín Tanja Davíðsdóttir.

Sara átti eftir að vera í toppbaráttunni til enda keppninnar 2015 en missti af sigri í lokin og endaði þriðja. Þetta voru hennar fyrstu heimsleikar.

Katrín Tanja Davíðsdóttir fór hins vegar alla leið og tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil í CrossFit. Áður haðfi Anníe Mist Þórisdóttir orðið tvisvar heimsmeistari.

Hér fyrir neðan má sjá þetta myndbrot þegar CrossFit heimurinn uppgötvaði nýjustu íslensku stórstjörnuna í CrossFit og fékk að kynnast keppnishörku og útgeislun Suðurnesjamærinnar.

Sara endurbirti myndbandið á sinni síðu en hún hafði mjög gaman að þessu og sagði að þetta myndband hafi kveikt í henni í miðjum undirbúningi fyrir heimaleikana. Hún sagði það að þetta sé enn uppáhaldsminning hennar frá leikunum og það er auðvelt að trúa því.

„Þetta kveikir virkilega í mér,“ skrifaði Sara Sigmundsdóttir á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×