Sport

Sara: Ég er svo ánægð með að heimsleikarnir fari fram eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir með Samönthu Briggs sem varð heimsmeistari í CrossFit árið 2013.
Sara Sigmundsdóttir með Samönthu Briggs sem varð heimsmeistari í CrossFit árið 2013. Mynd/Instagram

„Það hefur verið krefjandi að æfa útaf öllu því sem er í gangi en ég er svo ánægð með að heimsleikarnir séu enn á dagskrá. Maður hefur því eitthvað til að hlakka til,“ sagði Sara Sigmundsdóttir í viðtali við Wykie Etsebeth hjá Morning Chalk Up.

Sara er líka sátt við það að fyrri hluti heimsleikanna fari fram í gegnum netið og keppendur fái að gera æfingarnar heima frá sér.

„Þegar allir heimsleikarnir áttu að fara fram í Kaliforníu þá var það stressandi vitandi það að maður þyrfti að ferðast alla leið þangað í núverandi ástandi. Þú vilt bara vera með þínu nánasta fólki á svona tímum þegar heimsfaraldur er í gangi,“ sagði Sara.

Wykie Etsebeth spurði Söru út í það að vera sinn eigin þjálfari.

„Það hefur verið krefjandi og lykilatriði er að tengja ekki tilfinningar þínar við æfingaprógramið. Ég glímdi aðeins við það í byrjun að mér líður svona og mér líður svona. Ég verð bara alltaf að hugsa þannig að Sara þjálfari sé einhver allt önnur manneskja. Það var svolítið erfitt í byrjun,“ sagði Sara.

„Það er gefandi að þjálfa sig sjálf og ég fæ mikið út úr því. Ég hef alltaf verið sú sem segir: Ég þarf ekki á þessu að halda því ég get gert þetta sjálf. Þegar þú ert þinn þjálfari þá þarftu að náð í réttu hlutina frá mismunandi stöðum til að búa til rétta æfingaprógramið. Ég verð bara að prófa ýmislegt og sjá hvort það hentar mér,“ sagði Sara.

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt en þetta hefur líka verið mikill lærdómur fyrir mig. Vonandi er ég að verða betri í þessu,“ sagði Sara en hvernig gengur henni að bæta sig undir eigin stjórn.

„Ég myndi segja að ég sé að bæta mig lítið á mörgum stöðum. Þegar þú ert á þeim stað sem ég er á núna þá reyni ég að verða 0,5 sinnum betri á öllum sviðum. Það þýðir þá að þú sért að gera eitthvað rétt. Það væri draumur að geta bætt sinn besta árangur um tíu kíló en það var bara þannig þegar maður var að byrja í CrossFit,“ sagði Sara.

„Ég fer mikið eftir því hvernig mér líður. Þegar ég er að æfa of mikið þá verð ég svo tilfinningasöm, allt verður svo erfitt og ekkert gaman lengur. Það eru skilaboð um að ég sé ekki að gera þetta rétt og þurfi að fara í aðra átt núna,“ sagði Sara.

Það má finna viðtalið við Söru hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×