Umfjöllun og viðtöl: KR 1-2 Stjarnan | Ótrúlegar lokamínútur þegar Stjarnan vann í Vesturbænum

Ísak Hallmundarson skrifar
Stjarnan vann dýrmætan sigur á dramatískan hátt í Vesturbænum.
Stjarnan vann dýrmætan sigur á dramatískan hátt í Vesturbænum. vísir/bára

KR tók á móti Stjörnunni í Pepsi Max deild karla kl. 14:00 í dag. Lokatölur urðu ótrúlegur 1-2 sigur Garðbæinga, sem sneru við taflinu í blálokin.

Leikurinn var heldur rólegur fyrsta hálftímann eða svo, en heimamenn voru þó líklegri en gestirnir og áttu nokkrar hættulegar sóknir.

Leikar hresstust síðasta korterið eða svo í fyrri hálfleiknum og bæði lið fengu fínustu tækifæri til að skora. Kristján Flóki Finnbogason fékk besta færi fyrri hálfleiks á 36. mínútu. Kennie Chopart átti sendingu inn á teiginn þar sem Kristján Flóki fékk dauðafrían skalla af stuttu færi en hann skallaði boltann framhjá.

Á 39. mínútu átti Kristinn Jónsson hörkuskot af um 35 metra færi en Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar rétt náði að koma höndunum í boltann og blaka honum yfir markið. Haraldur átti nokkrar frábærar vörslur í fyrri hálfleik.

Stjörnumenn áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir í millitíðinni, Hilmar Árni Halldórsson fékk boltann í kjörinni stöðu inni í vítateig KR en Kennie Chopart náði að setja fæturna í veg fyrir skotið hans. Staðan í hálfleik því markalaus.

Seinni hálfleikur fór rólega af stað líkt og sá fyrri en það var á 64. mínútu sem Kristján Flóki Finnbogason kom Vesturbæingum yfir, Stefán Árni Geirsson fékk boltann úti á kanti og átti sendingu inn í teig þar sem Kristján Flóki var mættur og lagði boltann snyrtilega í netið framhjá Haraldi á marki gestanna.

Allt stefndi í sigur heimamanna í KR, en á 86. mínútu jafnaði Daníel Laxdal metin fyrir Stjörnuna. Markið kom nánast upp úr engu, það kom fyrirgjöf inn á teig KR-inga eftir snögga skyndisókn, Guðjón Baldvinsson skallaði boltann inn á markteiginn þar sem Daníel Laxdal var staddur og potaði boltanum í netið.

Á 89. mínútu fengu Garðbæingar aðra skyndisókn, varamaðurinn Óli Valur Ómarsson átti fyrirgjöf inn á teig og þar stangaði Guðjón Baldvinsson boltann í netið og tryggði Stjörnunni sigur. Ótrúlegar lokamínútur og ótrúlegur viðsnúningur hjá Stjörnunni, en það var alls ekki í kortunum að þeir væru að fara að jafna, hvað þá vinna þennan leik.

Af hverju vann Stjarnan?

Það var svo sem ekkert sem benti til þess þegar maður horfði á leikinn að Stjarnan væri að fara að vinna. KR stjórnaði leiknum og skapaði sér töluvert meira af færum. Á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins náðu Stjörnumenn hinsvegar að stela sigrinum með því að skora tvö góð mörk. Sá sem skorar fleiri mörk en andstæðingurinn vinnur fótboltaleiki og það var það sem Stjarnan gerði í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá KR voru það Kristinn Jónsson, Kennie Chopart og Stefán Árni Geirsson sem áttu allir mjög góðan leik, voru líflegir og sköpuðu fullt af færum.

Í liði Stjörnunnar átti Haraldur Björnsson í markinu stórgóðan leik og varði nokkrum sinnum frábærlega. Guðjón Baldvinsson átti góða innkomu, skoraði sigurmarkið og tók þátt í jöfnunarmarkinu, auk þess sem Daníel Laxdal átti góðan leik.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur KR í deildinni er á sunnudaginn eftir viku á móti Breiðablik á Kópavogsvelli. KR-liðið á góðar minningar þaðan síðan síðasta fimmtudag þegar liðið vann Blika 4-2 í bikarnum. Stjarnan tekur á móti toppliði Vals sama dag, en Garðbæingar þurfa nauðsynlega að vinna þann leik til að missa Valsara ekki of langt frá sér.

Rúnar Páll Sigmundsson: Frábær viðsnúningur

,,Þetta var bara frábær viðsnúningur og karakter að vilja vinna þennan leik. Við vorum ekki góðir heilt yfir í leiknum og vorum í vandræðum með marga hluti en unnum leikinn og það er það sem skiptir öllu máli, að fá þrjú stig, en við höfum oft spilað betur,‘‘ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar að leik loknum.

,,Við höfum alveg sýnt það undanfarin ár að við komum sterkir til baka oft á tíðum, við sýndum það rækilega í kvöld með þessum frábæra viðsnúningi.‘‘

Stjarnan hefur enn ekki tapað leik í deildarkeppninni. Rúnar segir það enga tilviljun.

,,Það er engin tilviljun, við erum með gott fótboltalið. Það vantar ekkert upp á það. Við höldum bara áfram ótrauðir og eigum erfiðan leik gegn Val næst. Við komum gríðarlega stefndir í þann leik,‘‘ sagði Rúnar Páll að lokum.

Rúnar Kristinsson: Vorum með tögl og hagldir í þessum leik

,,Ég er ekki búinn að sjá mörkin aftur sem við fengum á okkur en við erum með þennan leik algjörlega í höndunum. Þetta er eins ósanngjarnt og það verður í rauninni en fótbolti er bara svona, það þarf að klára leikinn sem er 90 mínútur,‘‘ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR.

Þrátt fyrir tapið var Rúnar á því að KR-liðið hafi verið mun betri aðilinn í leiknum.

,,Ég var mjög ánægður með liðið, við vorum mjög góðir á móti mjög öguðu og skipulögðu Stjörnuliði, það er erfitt að spila við þá. Við sköpuðum fullt og vorum með tögl og hagldir í þessum leik og stjórnuðum honum algjörlega. En það telur ekki ef þú skorar ekki fleiri mörk og heldur ekki búrinu hreinu.

Við erum mjög súrir yfir þessum leik og mér fannst við eiga skilið að fá meira í dag, en svona er þetta,‘‘ sagði Rúnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira