Júlían J. K. Jóhannsson, íþróttamaður ársins 2019, nýtti langþráð tækifæri til að keppa um helgina þegar hann tók þátt í Íslandsmótinu í kraftlyftingum í Njarðvík.
Júlían lyfti 415 kg í hnébeygju og bætti þar með Íslandsmet Auðuns Jónssonar um 2,5 kg. Júlían segir í samtali við RÚV að Auðunn hafi einmitt verið þjálfari hans á mótinu, og séð Júlían bæta síðasta metið sem Auðunn átti í +120 kg þyngdarflokknum.
Júlían á nú öll Íslandsmetin í +120 kg flokki. Hann hefur mest lyft 330,5 kg í bekkpressu og 405,50 í réttstöðulyftu, sem er jafnframt heimsmet. Samanlagt hefur hann mest lyft 1.148 kg, en þá er horft til árangurs á einu og sama móti.
Í Njarðvík lyfti Júlían 330,5 kg í bekkpressu og svo 390 kg í réttstöðulyftu. Samtals lyfti hann því 1.135 kg á Íslandsmótinu.
Sóley lyfti samtals 665 kílóum
Sóley Margrét Jónsdóttir, sem er frá Akureyri en flutti sig yfir í Breiðablik í vor, var í enn meiri metaham í Njarðvík. Þessi 19 ára heimsmeistari unglinga setti Íslands- og ungmennamet í bekkpressu, réttstöðulyftu og samanlögðu.
Sóley, sem keppir í +84 kg flokki, lyfti mest 180 kg í bekkpressu og 220 kg í réttstöðulyftu. Samtals lyfti hún 665 kg.
Þau Júlían og Sóley hafa ekki getað keppt á alþjóðlegum kraftlyftingamótum í ár vegna kórónuveirufaraldursins en úrslitin um helgina gefa góð fyrirheit fyrir það sem koma skal þegar alþjóðlegt mótahald hefst að nýju.