Bíó og sjónvarp

Það sem þú verður að sjá á RIFF

Heiðar Sumarliðason skrifar
Nomadland verður að teljast til alls líkleg á Óskarsverðlaunahátíðinni í vor.
Nomadland verður að teljast til alls líkleg á Óskarsverðlaunahátíðinni í vor.

Kvikmyndahátíðin RIFF hefst í dag, en hún er með óvenjulegu sniði í ár vegna Covid-ástandsins. Nú er hver mynd einungis sýnd einu sinni í kvikmyndahúsi, en hægt verður að kaupa aðgang að þeim á vefnum. Hér eru þær fimm myndir af hátíðinni sem hvað mest hefur verið látið með í erlendum miðlum og kvikmyndahátíðum.

Nomadland - Bandaríkin

Nomadland fjallar um konu á sjötugsaldri sem heldur af stað í ferðalag um amerískra vestrið, eftir að hafa misst allt sitt þegar stærsti atvinnuveitandi bæjarfélags hennar fer á hausinn, og dregur fram lífið í sendiferðabíl sem nútímahirðingi. Það er Óskarsverðlaunahafinn Frances McDormand sem leikur aðalhlutverkið, en hin kínverska Chloé Zhao leikstýrir og skrifar handritið upp úr bókinni Nomadland: Surviving America in the Twenty-First Century. Bókin er heimildarrit, sem Jessica Bruder skrifaði eftir að hafa dvalið með eldra fólki sem neyddist til að búa í húsbílum og keyra um í leit að vinnu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.

Nomadland vann Gullna ljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrr í þessum mánuði, sem og áhorfendaverðlaunin í Toronto. Þær kvikmyndir sem hafa í gegnum tíðina unnið þessi verðlaun í Toronto vegnar gjarnan vel á Óskarsverðlaunahátíðinni. Kvikmyndir á borð við The Green Book, La La Land, Life is Beautiful og American Beauty hafa t.d. hlotið hnossið og fylgt því eftir með velgengni á Óskarnum. Því verður Nomadland að teljast til alls líklega í Dolby Theatre í vor þegar Óskarsstytturnar verða afhentar. Meðaleinkunn hennar hjá gagnrýnendum stendur í 98 hjá Metacritic.com, sem er tala sem sjaldan sést.

Nomadland verður sýnd í Bíó Paradís 28. september klukkan 22:00.

Another Round - Danmörk

Mads teygar hér vínið.

Thomas Vinterberg er klárlega sá danski kvikmyndagerðarmaður sem Íslendingum fellur best í geð. Myndir hans Festen og Jagten hafa notið mikillar hylli, bæði hér á landi, sem og annars staðar. Nýjasta kvikmynd hans Another Round (Druk á frummálinu) verður sýnd 2. október klukkan 22:00 í Bíó Paradís.

Hún fjallar um nokkra framhaldsskólakennara sem gera tilraun með að viðhalda stöðugu ölvunarástandi í gegnum allan vinnudaginn, sem að sjálfsögðu fer úr böndunum. 

Another Round hefur fengið prýðilegar viðtökur á þeim kvikmyndahátíðum sem hún hefur nú þegar verið sýnd á. Hún hefur fallið að smekk áhorfenda og er meðaleinkunn hennar hjá Imdb.com 8.2.

The Body Remembers When the World Broke Open - Kanada

Sena úr The Body Remembers When the World Broke Open.

Þær Kathleen Hepburn og Elle-Máijá Tailfeathers skrifa og leikstýra í sameiningu The Body Remembers When the World Broke Open, en þetta er þeirra fyrsta samstarf. Kvikmyndin er m.a. merkileg fyrir þær sakir að hún er í næstum því einni samfelldri töku. Hepburn segir að það sé gert til að halda áhorfandanum, sem ávallt býst við klippingu, í sífelldri spennu. Þannig sé hann togaður af meira afli inn í tilfinningalíf persónanna.

The Body Remembers When the World Broke Open fjallar um Áila, sem rekst á Rosie, þungaða konu af indjánaættum úti á götu í Vancouver. Í ljós kemur að Rosie er þolandi heimilisofbeldis. Áila reynir að sannfæra hana um að leita sér hjálpar.

Bakgrunnur Tailfeathers, sem einnig leikur Áila, er mjög áhugaverður, en foreldrar hennar kynntust á ráðstefnu fólks af frumbyggjaættum. Faðir hennar er indjáni frá Kanada, en móðir hennar er Sami frá Noregi. Hún er sprenglærð og með BA-gráðu í leiklist, sem og gráðu í frumbyggja- og kynjafræði. Myndin er sýnd í Norræna húsinu þann 26. september klukkan 16:30, í flokknum Samar og líf þeirra. Meðaleinkunn myndarinnar hjá gagnrýnendum á Metacritic.com er 87.

Shithouse - Bandaríkin

Shithouse er fyrsta mynd Coopers Raiffs.

Kvikmyndin Shithouse vann aðal verðlaunin á South by Southwest-kvikmyndahátíðinni í Austin í Texas, en hún er frumraun Coopers Raiffs sem skrifar, leikstýrir, framleiðir, klippir og leikur aðalhlutverk myndarinnar.

Hún fjallar um einmana nýnema í háskóla sem haldinn er mikilli heimþrá. Kvöld eitt fer hann í teiti og endar á að sofa hjá örlítið eldri stúlku, sem síðan sýnir honum engan frekari áhuga, þrátt fyrir vilja nýnemans til að hefja ástarsamband.

Shithouse hefur hlotið jákvæða dóma gagnrýnenda sem og áhorfenda. Metacritic einkunn hennar er 80 og áhorfendaeinkunn á Imdb.com er 8.3.

Myndin verður sýnd í Bíó Paradís 27. september klukkan 18:00. 

Between Heaven and Earth - Palestína

Between Heaven and Earth hefur íslenska meðframleiðendur.

Between Heaven and Earth er palestínsk kvikmynd, framleidd í samvinnu við Ísland og Lúxemborg. Hún innblásin af sönnum atburðum og fjallar um ung hjón sem eru að skilja, þau þurfa að fara yfir landamærin frá Palestínu til Ísraels til að ganga frá skilnaðinum. Þar kemst maðurinn að því að faðerni hans er mögulega ekki það sem hann taldi vera.

Myndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands, og er kvikmyndatökumaður hennar Tómas Örn Tómasson, en gagnrýnandi Hollywood Reporter hrósaði nálgun hans sérstaklega í nýlegum í dómi sínum. Elísabet Ronaldsdóttir og Eggert Ketilsson eru meðframleiðendur.

Myndin verður sýnd 30. september klukkan 18:00 í Bíó Paradís og munu íslenskir aðstandendur hennar svara spurningum að henni lokinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.