Íslenski boltinn

Tæpt að Kári nái Rúmeníuleiknum

Atli Freyr Arason skrifar
Kári Árnason hefur leikið tólf leiki með Víkingi í Pepsi Max-deild karla í sumar.
Kári Árnason hefur leikið tólf leiki með Víkingi í Pepsi Max-deild karla í sumar. vísir/hulda margrét

Kári Árnason fór meiddur af velli í 2-1 tapi Víkings gegn Fylki í gærkvöldi en Kári haltraði af velli á 37. mínútu eftir samstuð við leikmann Fylkis. 

Ekki er vitað að svo stöddu hversu alvarleg meiðslin eru en Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, gaf það í skyn í viðtali eftir leikinn í gær að hann væri ekki bjartsýnn. Framundan er leikurinn mikilvægi gegn Rúmeníu í umspili um sæti á EM.

„Ég hef aðallega áhyggjur af Kára vegna þess það er stutt í landsleikina,“ sagði Arnar um stöðu mála og bætti við:

„Hann er vanalega fljótur að jafna sig þótt hann sé gamall en ég myndi halda að þetta væri allavega tvær til þrjár vikur.“

Landsleikurinn gegn Rúmeníu fer fram fimmtudaginn 8. október sem er eftir þrettán daga. Kári mun augljóslega ekki ná þeim leik ef meiðslin eru jafn alvarleg og Arnar taldi þau vera í leikslok í gær.

Tíminn einn mun þá leiða í ljós hvort Kári geti tekið einhvern þátt í þessum leik eða hvort hann bætist við á meiðslalista íslenska landsliðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×