Sport

Novak Djokovic sló aftur í dómara: „Vandræðalegt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic hafði ekki heppnina með sér og kom sér aftur í fréttirnar fyrir að slá boltanum í dómara.
Novak Djokovic hafði ekki heppnina með sér og kom sér aftur í fréttirnar fyrir að slá boltanum í dómara. EPA-EFE/IAN LANGSDON

Novak Djokovic var vísað úr keppni á opna bandaríska meistaramótinu á dögunum fyrir að slá boltanum í línudómara og í gær sló Serbinn aftur í dómara á opna franska meistaramótinu. Aðstæðurnar voru þó allt aðrar og hann er áfram með í mótinu.

Tenniskappinn Novak Djokovic segir að það hafi verið „vandræðalegt“ fyrir sig að skjóta boltanum aftur í dómara á fyrsta risamótinu eftir að honum var vísað úr keppni á opna bandaríska meistaramótinu.

Novak Djokovic varð fyrir óláni að skjóta aftur í dómara í sigri sínumn á Karen Khachanov í gær. Það var þó algjör óheppni og ekki Serbanum að kenna að boltinn fór í dómarann.

„Vonandi er í lagi með hann. Hann tók á þessu af hörku og hugrekki. Það var engin spurning um að ég hitti hann því ég var það nálægt honum,“ sagði Novak Djokovic.

Á opna bandaríska meistaramótinu var Novak Djokovic að keppa við Spánverjann Pablo Carreno Bust. Í miklu svekkelsi þá sló hann í boltann sem endaði þá í hálsi línudómarans. Hann ætlaði ekki að hitta dómarann en átti aldrei að slá boltann sem var ekki í leik.

Að þessu sinni var boltinn í leik og Djokovic að svara uppgjöf Karen Khachanov. Sem betur fer virtist dómarinn ekki meiða sig mikið ólíkt atvikinu í New York.

„Þetta var vandræðalegt deja vu. Ég var að reyna að finna línudómarann áðan til að athuga með hann hann. Því ég sá að hann var svolítið rauður á andlitinu þar sem boltinn fór,“ sagði Djokovic.

„Auðvitað eiga margir eftir að gera frétt úr þessu vegna þess sem gerðist í New York. Þetta hefur gerst áður fyrir mig og fyrir svo marga aðra spilara á þeim fimmtán árum sem ég hef verið á mótaröðinni,“ sagði Novak Djokovic.

Novak Djokovic er þar með kominn í átta manna úrslit þar sem hann mætir öðrum Spánverja, Carreno Busta.

Djokovic hefur enn ekki tapað leik á árinu fyrir utan þann þar sem hann var dæmdur úr keppni á opna bandaríska meistaramótinu. Hann hefur unnið hina 36 leikina sína og er auðvitað enn efstur á heimslistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×