Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í gær á heimsbikarmóti í þríþraut í bænum Arzachena á Ítalíu. Stóð í hún í þeim bestu framan af keppni en allar bestu þríþrautarkonur heims voru mættar í keppnina, þar á meðal heimsmeistararnir Katie Zafares og Flora Duffy.
Um er að ræða sprettþraut þar sem syntir voru 750 m í sjó, síðan hjólað 20 km í krefjandi braut með um 112m hækkun í hverjum hring, samtals þrír hringir, og að lokum 5 km hlaup, tveir hringir.
Guðlaug Edda átti frábært sund og kom fimmta upp úr vatninu stutt á eftir Floru Duffy sem leiddi. Eftir fína skiptingu kemst Guðalaug Edda í hóp á hjólinu á eftir Duffy sem hjólar ein fremst með ágætis forskot.
Guðlaug lenti í vandræðum á hjólaleggnum í miðri brekku þegar keðjan hrekkur af og festist og fór dýrmætur tími í að laga keðjuna. Guðlaug kom í mark á tímanum 1:09.45 og endaði í 36. sæti.
Þetta var síðasta keppnin á tímabilinu og við tekur tveggja vikna frí áður en æfingar hefjast á nýju. Framundan er svo uppbyggingartímabil þar sem markiðið er sett á að komast á Ólympíuleikana á næsta ári.