Sport

Katrín Tanja önnur í grein tvö: Toomey og Fraser með fullt hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir fór í viðtal eftir frammistöðu sína í grein tvö þar sem hún varð önnur.
Katrín Tanja Davíðsdóttir fór í viðtal eftir frammistöðu sína í grein tvö þar sem hún varð önnur. Skjámynd/Youtube

Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð sig mjög vel í annarri grein ofurúrslita heimaleikanna en tókst þó ekki að koma í veg fyrir annan sigur Tiu-Clair Toomey í röð.

Katrín Tanja Davíðsdóttir var önnur í brekkuhlaupinu en hún kláraði á þremur mínútum og 13,18 sekúndum eða rúmum sjö sekúndum á eftir Tiu-Clair Toomey sem vann sína aðra grein í röð.

Katrín Tanja fékk því 75 stig fyrir grein tvö og er þar með komin með 110 stig samanlagt. Hún er í þriðja sæti 90 stigum á eftir Toomey. Hin unga Haley Adams er önnur, 20 stigum á undan Katrínu og 70 stigum á eftir Toomey.

Tia-Clair Toomey hefur unnið yfirburðasigur á heimsleikunum síðustu ár og lítur ekki út fyrir að vera gefa mikið eftir ekki frekar en Mathew Fraser í karlaflokkunum.

Keppendur í grein tvö áttu að hlaupa með þunga sandpoka á bakinu upp 320 metra brekku sem er vissulega í brattari lagi. Pokinn hjá stelpunum var 13,6 kíló.

Tia-Clair Toomey tók fyrstuna í byrjun og Katrín Tanja varð í þriðja sætinu framan af hlaupinu en kom sér í upp í annað sætið eftir rúma eina og hálfa mínútu.

Katrín Tanja hélt öðru sætinu út hlaupið en tókst ekki að hlaupa uppi Tiu-Clair Toomey.

Brooke Wells byrjaði hlaupið vel en endaði í síðasta sætinu alveg eins og í grein eitt.

Mathew Fraser vann sandpokabrekkuhlaupið nokkuð sannfærandi hjá körlunum og er því kominn með tvö hundruð stig af tvö hundruð mögulegum. Hann er stax kominn með sjötíu stiga forystu.

Fraser byrjaði aftarlega í sandpokahlaupinu en stakk síðan af í lokin og vann annan öruggan sigur í röð. Hann kláraði á 2:51,54 mín. en Samuel Kwant varð annar á 3:07,90 mín.

Samuel Kwant er annar í heildarkeppninni en hann hefur verið í öðru og þriðja sæti í fyrstu tveimur greinunum.

Justin Medeiros varð annar í fyrstu grein en sofnaði aðeins á verðinum í lokin og missti af fjórða sætinu til Jeffrey Adler á síðustu metrunum.

Stig eftir fyrstu tvær greinarnar í kvennaflokki:

  • 1. Tia-Clair Toomey, Ástralíu 200 stig
  • 2. Haley Adams, Bandaríkjunum 130 stig
  • 3. Katrín Tanja Davíðsdóttir, Íslandi 110 stig
  • 4. Kari Pearce, Bandaríkjunum 90 stig
  • 5. Brooke Wells, Bandaríkjunum 30 stig

Stig eftir fyrstu tvær greinarnar í karlaflokki:

  • 1. Mathew Fraser, Bandaríkjunum 200 stig
  • 2. Samuel Kwant, Bandaríkjunum 130 stig
  • 3. Justin Medeiros, Bandaríkjunum 90 stig
  • 4. Jeffrey Adler, Kanada 70 stig
  • 4. Noah Ohlsen, Bandaríkjunum 70 stig

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×