Sport

Katrín Tanja sýndi svakalegan andlegan styrk þegar hún vann fimmtu greinina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir fagnar sigri í lokagrein gærdagsins.
Katrín Tanja Davíðsdóttir fagnar sigri í lokagrein gærdagsins. Skjámynd/Youtube

Katrín Tanja Davíðsdóttir kom sér aftur af botninum og inn í baráttuna með frábærri frammistöðu í lokagrein fyrsta dagsins á ofurúrslitum heimsleikanna í CrossFit.

Katrín Tanja vann fimmtu og síðustu grein dagsins með miklum yfirburðum en hún var meira próf í andlegum styrk en nokkuð annað. Keppendurnir í ofurúrslitum heimsleikanna fengu slæmar fréttir þegar þau héldu að þeir væru að koma í mark í lokagrein dagsins. Jú, það var annar hringur eftir.

Katrín Tanja Davíðsdóttir tók þessum fréttum fagnandi og hreinlega gaf í á seinni hringnum sem var um fram allt próf í andlegum styrk. Þar fékk Katrín Tanja tíu í einkunn.

Með þessum hundrað stigum þá komst Katrín Tanja upp úr neðsta sætinu og upp í þriðja sætið fyrir annan daginn af þremur.

Lokagrein þessa erfiða dags var víðavangshlaup sem átti að vera tæpir fimm kílómetra upp hóla og hæðir og á erfiðu og ósléttu undirlagi. Þegar keppendur héldu og þeir væru að koma í mark eftir þessa fimm kílómetra þá var þeim tilkynnt um það að þeir ættu að fara annan hring.

Katrín Tanja var aldrei í toppbaráttunni á fyrri hringnum en sýndi gríðarlegan andlegan styrk með því að eflast öll við fréttirnar að þau væru bara hálfnuð í stað þess að vera búinn.

Heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey vann fyrri hringinn en hafði ekki styrk í að halda efsta sætinu á seinni hringnum. Katrín Tanja keyrði fram úr hverri á fætur annarri. Hin unga Haley Adams hélt lengst í við hana en Katrín Tanja stakk þær allar af á lokasprettinum.

Katrín Tanja kom brosandi í markið eftir næstum því tíu kílómetra hlaup í lok mjög erfiðs dags á meðan hinar voru mjög þungar á fæti þegar þær komust loksins í mark.

Viðtalið við Katrínu Tönju eftir hlaupið var líka mjög skemmtilegt. Hún sagðist þar hafa fengið aukakraft við fréttirnar að það væri annar hringur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×