Sport

Ísland á tvær af þremur tekjuhæstu CrossFit konum ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir. Instagram/Samsett

Lengsta CrossFit tímabili sögunnar lauk á dögunum og það er athyglisvert að skoða heildarverðlaunafé besta CrossFit fólks heims á nýloknu tímabili.

Kórónuveiran setti mikinn svip á tímabilið og bæði frestanir og aflýsingar sáu til þess að tímabilið endaði ekki fyrr en seint í október. Heimsleikarnir voru líka með allt öðru sniði en bæði fyrri hlutinn og ofurúrslitin heppnuðust vel.

Morning Chalk Up tók saman heildarverðlaunafé CrossFit fólksins á árinu.

Ísland á þrjá fulltrúa meðal tíu tekjuhæstu karla og kvenna í CrossFit heiminum á árinu 2020.

Björgvin Karl Guðmundsson er í tíunda sætinu hjá körlunum og Ísland á tvær af þremur tekjuhæstu CrossFit konunum á tímabilinu.

Björgvin Karl Guðmundsson vann sér inn rúmlega nítján þúsund dali eða 2,7 milljónir íslenskra króna.

Katrín Tanja Davíðsdóttir kom sér upp í annað sætið með frábærri frammistöðu á heimsleikunum. Katrín Tanja vann sér alls inn 136 þúsund Bandaríkjadali á tímabilinu eða 19,2 milljónir króna.

Allt nema 500 dalir var verðlaunafé Katrínar Tönju á heimsleikunum því það gekk lítið hjá henni framan af tímabilinu þegar hún glímdi við erfið bakmeiðsli.

Sara Sigmundsdóttir var lengi í efsta sæti þessa lista en endar í þriðja sætið með verðlaunafé upp á 119 þúsund dali eða 16,8 milljónir króna. Sara hækkaði sig um tvö sætið á listanum frá því árið áður þegar hún varð fimmta. Það gerði Sara þrátt fyrir að fá ekkert verðlaunafé frá heimsleikunum.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að heimsmeistararnir Mathew Fraser og Tia-Clair Toomey eru með talsverða yfirburði á listunum.

Tia-Clair Toomey vann sér inn 415 þúsund Bandaríkjadali á árinu 2020 eða meira en 58 og hálfa milljón í íslenskum krónum.

Toomey var tekjuhærri en tekjuhæsti karlinn en Mathew Fraser vann sér inn rúmlega 354 þúsund dali eða meira en 50 milljónir íslenskra króna.

Björgvin Karl rétt slapp inn á topp tíu listann en hann fékk aðeins 20 dollurum meira en Jonne Koski sem endaði í ellefta sætinu. Björgvin komst upp í tíunda sætið af því að hann fékk verðlaunaféð fyrir að vinna fyrsta hlutann á The Open eftir að Lefteris Theofanidis féll á lyfjaprófi. Björgvin Karl fór fyrir vikið úr öðru sæti upp í það fyrsta í 20.1.

Björgvin Karl var einn af fjórum sem voru í líka á topp tíu listanum í fyrra en hinir voru Mathew Fraser (1. sæti), Patrick Vellner (2. sæti) og Noah Ohlsen (6. sæti). Björgvin varð tíundi annað árið í röð.

Topp tíu listinn hjá konunum:

  • 1. Tia-Clair Toomey – $415,080
  • 2. Katrín Tanja Davíðsdóttir – $136,020
  • 3. Sara Sigmundsdóttir – $119,020
  • 4. Kari Pearce – $110,020
  • 5. Haley Adams – $71,962
  • 6. Karin Freyova – $55,500
  • 7. Brooke Wells – $52,000
  • 8. Amanda Barnhart – $46,020
  • 9. Sam Briggs – $44,520
  • 10. Kristin Holte – $40,020

Topp tíu listinn hjá körlunum:

  • 1. Mathew Fraser – $354,542
  • 2. Patrick Vellner – $128,060
  • 3. Samuel Kwant – $128,000
  • 4. Justin Medeiros – $101,000
  • 5. Brent Fikowski – $79,500
  • 6. Noah Ohlsen – $87,020
  • 7. Jeffrey Adler – $63,020
  • 8. Roman Khrennikov – $55,500
  • 9. Chandler Smith – $46,500
  • 10. Björgvin Karl Guðmundsson – $39,520



Fleiri fréttir

Sjá meira


×