Fjallað var um málið á Vísi í gær en Fótbolti.net vakti fyrst athygli á málinu og staðfesti Jón Þór þar að hann hefði átt samtöl við leikmenn sem hefðu ekki átt að eiga sér stað.
„Ég tók þátt í að fagna okkar árangri og eftir á að hyggja voru það mistök. Ég hef rætt við hluta þeirra leikmanna sem ég átti þessi samtöl við og beðist afsökunar," sagði Jón Þór í samtali við Fótbolti.net.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í dag. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þess beðið að Jón Þór losni úr sóttkví sem hann er í eftir komuna að utan. Í framhaldinu verði fundað með þeim aðilum sem að málinu koma.
Bíður eftir fundi með KSÍ og stelpunum
Jón Þór vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar Vísir heyrði í honum hljóðið í gærkvöldi. Hann sagði í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu í dag:
„KSÍ hefur sagst vera að skoða málið. Ég vil ekki tjá mig opinberlega um málið fyrr en ég hef fundað með KSÍ og liðinu.”
Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, og Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum og íþróttafréttamaður til margra ára, telja leikmenn kvennalandsliðsins hafa starf hans í hendi sér.
Þeir ræddu málið í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 977 í dag.
Sér ekki að Jóni sé stætt í starfi
„Maður þykist vera með þokkalega fína mynd af þessu núna. Ég get ekki séð að honum sé stætt áfram í starfi nema að hópurinn allur komi með einhverja yfirlýsingu um að hann sé rétti maðurinn. Maður hefur heyrt að þetta hafi tekið verulega á þær nokkrar,“ segir Tómas.
„Miðað við sögurnar er maður ekki að búast við því að sú yfirlýsing sé að koma,“ segir Elvar Geir.
„Það yrði skrítið á þessu nýju tímum að maður sem brýtur svona af sér í starfi haldi starfinu. Í raun er það kannski skrýtið að hann sé ekki búinn að segja starfi sínu lausu,“ segir Tómas.
Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ, var með í ferðinni.
„Ef Jón Þór er búinn að missa hópinn þá er það bara í höndum KSÍ að fá staðfestingu á því. Ég get ekki séð að það eigi að vera meira mál en að hringja í Söru Björk (Gunnarsdóttur) fyrirliða sem veit nákvæmlega hvað er í gangi innan hópsins. Það hlýtur að vera hægt að heyra bara í henni og taka svo ákvörðun,“ segir Elvar Geir.
Upptöku af umræðunni má nálgast hér fyrir neðan.