Sérstök dómnefnd fór svo yfir allar tilnefningar. Í kjölfarið voru tíu einstaklingar valdir sem þóttu skara fram úr og var síðan kosning hér á Vísi.
Þetta er í sjötta skiptið sem Iðnaðarmaðurinn er valinn hér á Vísi. Árið 2015 var Arnór Davíð Pétursson pípari valinn, 2016 var það Halldóra Þorvarðardóttir blikksmiður, 2017 Auður Linda Sonjudóttir, 2018 Kristín Snorradóttir skrúðgarðyrkjufræðingur og 2019 Malín Frid loftlínurafvirki.
Iðnaðarmaður ársins 2020 er hinn 91 árs Helgi Ólafsson frá Raufarhöfn. Helgi er rafvirki og er hvergi nærri hættur. Helgi býðst til þess að borga fyrir að fá að vinna.
Ómar Úlfur heyrði kappanum.
„Hvaða vitleysa er á ferðinni,“ sagði Helgi þegar Ómar heyrði í honum og tilkynnti að Helgi væri iðnaðarmaður ársins.
„Það hlýtur nú að vera að þetta sé dásamlegt. Ég er svona starfandi rafvirki í neyð,“ segir Helgi og hlær.
„Ég er ekkert hættur að vinna, ef ég fæ eitthvað verkefni þá vinn ég það þó að launin séu náttúrulega enginn. Ég verð 92 ára í maí og tók sveinsprófið árið 1950. Ég er fæddur hér og uppalinn. Ég lærði hjá Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði og var þar í Iðnskólanum og lauk þar prófi.“
Kristján Már Unnarsson hitti einmitt Helga á Raufárhöfn fyrir fjórum árum og ræddi við hann.