Anton Rúnarsson, leikmaður topplið Vals í Olís-deild karla handbolta, segir að það væri afar svekkjandi ef tímabilið yrði flautað af vegna kórónuveirunnar, m.a. vegna þess að Valsmenn eru komnir í 8-liða úrslit EHF-bikarsins. Hann segir að leikmenn hafi þó fullan skilning á þeirri fordæmalausu stöðu sem upp er komin.
„Það yrði mikið högg. Við höfum haft þvílíkt mikið fyrir því að fara í þessa keppni, fjáraflanir og fleira. Það er mikill tími á bak við Evrópukeppnina,“ sagði Anton í Seinni bylgjunni í gær.
„Staðan er mjög skrítin. Öll lið eru búin að æfa í 8-9 mánuði og leggja þvílíkan tíma í þetta. Það yrði synd ef þetta yrði flautað af en auðvitað höfum við 100% skilning á hvernig staðan er. Þess vegna er gott að bíða aðeins og sjá hvernig þróunin verður næstu vikur.“
Í 8-liða úrslitum EHF-bikarsins átti Valur að mæta norska liðinu Halden. Tímabilið í Noregi hefur verið blásið af og Svíar fóru sömu leið í gær.
Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.