Sport

Frægur bandarískur sjónvarpsmaður til í að lýsa því sem er að gerast heima hjá fólki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Buck er þekktur fyrir að lýsa stórleikjum í bandaríska fóboltanum og bandaríska hafnaboltanum.
Joe Buck er þekktur fyrir að lýsa stórleikjum í bandaríska fóboltanum og bandaríska hafnaboltanum. Mynd/foxsports

Það eru fleiri en íþróttaáhugafólk og stuðningsmenn sem sakna íþróttanna. Íþróttalýsendur sakna þess líka að lýsa kappleikjum og enn af þeim frægu vill núna fá eitthvað að gera.

Joe Buck er þekktur lýsandi á íþróttakappleikjum í Bandaríkjunum og starfar nú fyrir Fox Sports sjónvarpsstöðina.

Buck er þekktur fyrir að lýsa leikjum í bandarísku sjónvarpi og þá aðallega í NFL-deildinni og bandaríska hafnaboltanum þar sem hann lýsir vanalega úrslitaleikjunum um titilinn.

Joe Buck er greinilega orðin mjög óþolinmóður að sitja heima og fá ekki að lýsa leikjum. Hann tók þá ákvörðun að biðla til fólks í sömu stöðu sem gæti haft gaman af því að fá einkalýsingu frá einni af frægustu röddum Bandaríkjanna.

„Ég hef góðar fréttir fyrir ykkur. Nú þegar við erum öll inni í sóttkví og án íþrótta þá væri ég meira en tilbúinn að fá tækifæri til að halda mér í æfingu,“ skrifaði Joe Buck á Twitter síðuna sína.

„Sendið mér myndbönd af því sem þið eruð að gera heima og ég mun lýsa því sem fram fer. Í alvöru,“ skrifaði Joe Buck. Hann bætti síðan við: „Þetta á að vera eitthvað sem þið eruð að gera en ekki einhverjir tölvuleikir.“

Hann setti síðan inn myndband af sér að lýsa því sem var í gangi hjá hans fjölskyldu eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×