Körfubolti

Baldur um grun um veðmálasvindl: Hafði enga trú á að þetta væri til staðar

Sindri Sverrisson skrifar
ÍR vann Tindastól í Breiðholtinu.
ÍR vann Tindastól í Breiðholtinu.

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, segist ekki hafa haft neina trú á því að grunur um að leikmenn liðsins ættu þátt í veðmálasvindli í vetur væri á rökum reistur.

Fregnir bárust af því í desember að óvenju háum upphæðum hefði verið veðjað á leik Tindastóls gegn ÍR í Domino‘s-deild karla í körfubolta. KKÍ tók málið til skoðunar til að reyna að komast að því hvort að hugsanlega hefðu leikmenn haft óeðlileg áhrif á úrslit leiksins, sem Tindastóll tapaði, og var niðurstaðan sú að engin vísbending væri um veðmálasvindl

Baldur var í viðtali við Sportið í dag á Stöð 2 Sport þar sem hann var spurður hvort umræðan hefði haft áhrif á leikmannahóp Tindastóls.

„Þetta beindist náttúrulega að ákveðnum leikmönnum. Ég er búinn að vinna með þeim á hverjum degi, þekki þá mjög vel, og í sjálfu sér fannst mér þetta… ég hafði enga trú á því að þetta væri til staðar og þeirra viðbrögð við þessu… ef að maður þekkir menn einhvern veginn þá sá maður að þetta átti ekki að vera neitt rétt í þessu,“ sagði Baldur í dag.

„Við töldum okkur vita sannleikann og að hann myndi koma í ljós. Við myndum bara einbeita okkur að því sem að við gætum stjórnað. Við myndum bara mæta á æfingu og leggja okkur fram, og einbeita okkur að því að bæta okkur í körfu og bæta okkur sem persónur. Að halda áfram. Þetta er baráttan sem maður er alltaf í í dag. Það er komin meiri athygli á sportið og maður er einhvern veginn alltaf í sviðsljósinu. Þó að það sé voða gaman að þetta sé orðið stærra þá þarf maður samt að læra að það sem mestu máli skiptir er að mæta á æfingu og leggja sig fram,“ sagði Baldur.

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×