Lotningin fyrir véfréttinni Þorsteinn Pálsson skrifar 13. júlí 2013 06:00 Engu var líkara en Alþingi breyttist í tilbeiðslumusteri þegar bollaleggingar hófust um hvort forseti lýðveldisins myndi staðfesta lög um breytingar á veiðigjöldum. Í lotningu beindu ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan, með gagnstæðum formerkjum, öllum bænum sínum til Bessastaða eins og véfréttin í Delfí sæti þar og réði örlögum manna með tvíræðu tali. Herforingjar fornaldar leituðu gjarnan til Delfí til að fá æðri leiðsögn um hvort ráðast ætti til orrustu. Þegar véfréttin spáði að mikilmenni myndi leggja undir sig nýjar lendur tóku menn það til sín beggja megin víglínunnar. Þannig sóttu sumir gæfu sína til Delfí en aðrir niðurlægingu. Eitt er að færa sögur grískrar fornmenningar frá einni kynslóð til annarrar; það er hollt þjóðmenningu allra landa. Hitt er auðmýkjandi þegar véfréttargoðsögnin er við upphaf tuttugustu og fyrstu aldar gerð að lykilatriði í stjórnskipun frjálsborinnar þjóðar með allnokkra lýðræðishefð. Erfitt er að knýja þjóðhöfðingja til undirskriftar sem samviska hans býður að láta vera. Við þessu var séð í lýðveldisstjórnarskránni. Í stað þess að þjóðhöfðinginn þyrfti við slíkar aðstæður að segja af sér fær þjóðin úrskurðarvald um samviskubitið milli hans og Alþingis. Á liðnum áratug hefur þetta stjórnskipulega neyðarúrræði verið misnotað til að gera forsetann að miðpunkti pólitískra áhrifa. Í fornöld meitluðu menn nafla heimsins í stein í Delfí. Nú halda margir að hann sé á Bessastöðum.Ábyrgð stjórnmálaflokkanna Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er þjóðkjörið Alþingi nafli þjóðfélagsvaldsins. Það fer með fullveldi þjóðarinnar í umboði hennar. Verkurinn er að Alþingi hefur tekið fullan þátt í að breyta neyðarákvæði í stjórnarskránni í goðsagnarlega véfréttarforsögn um að forsetinn hafi ráð löggjafarsamkomunnar í hendi sér. Þegar alþingismenn leggjast á hnén og tilbiðja véfréttina í von um að hún boði þeim nokkuð gott er eins og þeir falli í ómegin og gleymi að þeir sjálfir eru þjóðkjörnir til að setja lögin. Forsetanum hefur tekist að spila á þá tækifærishugsun margra stjórnmálamanna sem enginn þekkir betur af langri reynslu en hann sjálfur. Stjórnarandstaðan leggst alltaf á sveifina með þeim sem biðja forsetann um synjun. Núverandi stjórnarflokkar hafa á einum áratug lokið heilum hring, fyrst á móti en síðan með því að forsetinn beiti synjunarvaldinu; og byrja nú annan hring á móti. Samfylkingin og VG eru að byrja sinn annan hring með því að valdinu sé beitt eftir að hafa andmælt á síðasta kjörtímabili en áður verið með. Háðung stjórnmálaflokkanna felst í því að ákvörðun forsetans í hverju falli ræðst alfarið af mati hans á hlutfalli styrkleika eða veikleika milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar. Nú stendur svo á að fyrrum ríkisstjórnarflokkar eru enn að sleikja sár sín eftir afgerandi kosningaósigur. Við svo búið er ný ríkisstjórn einfaldlega of sterk. Þegar forsetinn synjar vogar hann litlu og treystir því að ríkisstjórnarflokkar hafi ekki nægan styrk eða sjálfsvirðingu til að mæta honum með þingrofi. Það er þó eina ábyrga afstaðan, sem þingmeirihluti á hverjum tíma getur sýnt.Nýtt súrefni Vaxtaskuldbindingarnar samkvæmt síðustu Icesave-lögunum voru af svipaðri stærðargráðu og lækkun veiðigjaldanna á sex árum. Af þessu má ráða að Bessastaðavaldið lætur ekki það eðli löggjafar ráða samþykki eða synjun hvort þar er mælt fyrir um útgjöld eða tekjutap ríkissjóðs. Það eitt gildir hvort þeir eru líklegir til að geta lyft vegsemd valdsins sem eru á móti hverju sinni. Forsetinn stóð með ríkisstjórninni nú. Hún fékk hins vegar aðvörun. Forsetinn boðar að hann kunni að draga taum stjórnarandstöðunnar við endurskoðun fiskveiðilaganna verði ríkisstjórnin að hans mati ekki nægjanlega sáttfús. Forsætisráðherra hefur þegar beygt sig undir þann boðskap. Þetta útspil styrkir því stjórnarandstöðuna verulega þegar fram í sækir. Eftir boðskapnum þarf hún aftur á móti að efna til málþófs þegar þar að kemur til þess að véfréttin fái svigrúm til að glöggva sig á hver hafi undirtökin í almenningsálitinu. Ekkert menningarríki sem ber virðingu fyrir fullveldi sínu getur búið við véfréttarstjórnskipan af þessu tagi. Hverjir fara með löggjafarvaldið í raun og veru? Og það sem meira er: Hvar liggur ábyrgðin? Það er tilgáta einhverra sérfræðinga að óræður boðskapur véfréttarinnar í Delfí hafi orsakast af óheilnæmu jarðgasi þar á svæðinu. Það finnst ekki á Bessastöðum. En þar er eigi að síður nauðsyn á nýju súrefni. Alþingi verður jafnframt að sýna ríkari ábyrgð og staðfestu. Síðan er þarft að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar um þetta efni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Strætó fær sérakrein á Kringlumýrarbraut Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun
Engu var líkara en Alþingi breyttist í tilbeiðslumusteri þegar bollaleggingar hófust um hvort forseti lýðveldisins myndi staðfesta lög um breytingar á veiðigjöldum. Í lotningu beindu ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan, með gagnstæðum formerkjum, öllum bænum sínum til Bessastaða eins og véfréttin í Delfí sæti þar og réði örlögum manna með tvíræðu tali. Herforingjar fornaldar leituðu gjarnan til Delfí til að fá æðri leiðsögn um hvort ráðast ætti til orrustu. Þegar véfréttin spáði að mikilmenni myndi leggja undir sig nýjar lendur tóku menn það til sín beggja megin víglínunnar. Þannig sóttu sumir gæfu sína til Delfí en aðrir niðurlægingu. Eitt er að færa sögur grískrar fornmenningar frá einni kynslóð til annarrar; það er hollt þjóðmenningu allra landa. Hitt er auðmýkjandi þegar véfréttargoðsögnin er við upphaf tuttugustu og fyrstu aldar gerð að lykilatriði í stjórnskipun frjálsborinnar þjóðar með allnokkra lýðræðishefð. Erfitt er að knýja þjóðhöfðingja til undirskriftar sem samviska hans býður að láta vera. Við þessu var séð í lýðveldisstjórnarskránni. Í stað þess að þjóðhöfðinginn þyrfti við slíkar aðstæður að segja af sér fær þjóðin úrskurðarvald um samviskubitið milli hans og Alþingis. Á liðnum áratug hefur þetta stjórnskipulega neyðarúrræði verið misnotað til að gera forsetann að miðpunkti pólitískra áhrifa. Í fornöld meitluðu menn nafla heimsins í stein í Delfí. Nú halda margir að hann sé á Bessastöðum.Ábyrgð stjórnmálaflokkanna Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er þjóðkjörið Alþingi nafli þjóðfélagsvaldsins. Það fer með fullveldi þjóðarinnar í umboði hennar. Verkurinn er að Alþingi hefur tekið fullan þátt í að breyta neyðarákvæði í stjórnarskránni í goðsagnarlega véfréttarforsögn um að forsetinn hafi ráð löggjafarsamkomunnar í hendi sér. Þegar alþingismenn leggjast á hnén og tilbiðja véfréttina í von um að hún boði þeim nokkuð gott er eins og þeir falli í ómegin og gleymi að þeir sjálfir eru þjóðkjörnir til að setja lögin. Forsetanum hefur tekist að spila á þá tækifærishugsun margra stjórnmálamanna sem enginn þekkir betur af langri reynslu en hann sjálfur. Stjórnarandstaðan leggst alltaf á sveifina með þeim sem biðja forsetann um synjun. Núverandi stjórnarflokkar hafa á einum áratug lokið heilum hring, fyrst á móti en síðan með því að forsetinn beiti synjunarvaldinu; og byrja nú annan hring á móti. Samfylkingin og VG eru að byrja sinn annan hring með því að valdinu sé beitt eftir að hafa andmælt á síðasta kjörtímabili en áður verið með. Háðung stjórnmálaflokkanna felst í því að ákvörðun forsetans í hverju falli ræðst alfarið af mati hans á hlutfalli styrkleika eða veikleika milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar. Nú stendur svo á að fyrrum ríkisstjórnarflokkar eru enn að sleikja sár sín eftir afgerandi kosningaósigur. Við svo búið er ný ríkisstjórn einfaldlega of sterk. Þegar forsetinn synjar vogar hann litlu og treystir því að ríkisstjórnarflokkar hafi ekki nægan styrk eða sjálfsvirðingu til að mæta honum með þingrofi. Það er þó eina ábyrga afstaðan, sem þingmeirihluti á hverjum tíma getur sýnt.Nýtt súrefni Vaxtaskuldbindingarnar samkvæmt síðustu Icesave-lögunum voru af svipaðri stærðargráðu og lækkun veiðigjaldanna á sex árum. Af þessu má ráða að Bessastaðavaldið lætur ekki það eðli löggjafar ráða samþykki eða synjun hvort þar er mælt fyrir um útgjöld eða tekjutap ríkissjóðs. Það eitt gildir hvort þeir eru líklegir til að geta lyft vegsemd valdsins sem eru á móti hverju sinni. Forsetinn stóð með ríkisstjórninni nú. Hún fékk hins vegar aðvörun. Forsetinn boðar að hann kunni að draga taum stjórnarandstöðunnar við endurskoðun fiskveiðilaganna verði ríkisstjórnin að hans mati ekki nægjanlega sáttfús. Forsætisráðherra hefur þegar beygt sig undir þann boðskap. Þetta útspil styrkir því stjórnarandstöðuna verulega þegar fram í sækir. Eftir boðskapnum þarf hún aftur á móti að efna til málþófs þegar þar að kemur til þess að véfréttin fái svigrúm til að glöggva sig á hver hafi undirtökin í almenningsálitinu. Ekkert menningarríki sem ber virðingu fyrir fullveldi sínu getur búið við véfréttarstjórnskipan af þessu tagi. Hverjir fara með löggjafarvaldið í raun og veru? Og það sem meira er: Hvar liggur ábyrgðin? Það er tilgáta einhverra sérfræðinga að óræður boðskapur véfréttarinnar í Delfí hafi orsakast af óheilnæmu jarðgasi þar á svæðinu. Það finnst ekki á Bessastöðum. En þar er eigi að síður nauðsyn á nýju súrefni. Alþingi verður jafnframt að sýna ríkari ábyrgð og staðfestu. Síðan er þarft að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar um þetta efni.