Körfubolti

Er kominn tími fyrir Tommy að skipta aftur í gamla treyjunúmerið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tommy Johnson hefur aðeins skorað 8,8 stig í treyju númer sjö.
Tommy Johnson hefur aðeins skorað 8,8 stig í treyju númer sjö. Mynd/Stefán
Það hefur lítið gengið hjá KR-ingnum Tommy Johnson að undanförnu. Leikbann, meiðsli og hver slaki leikurinn á fætur öðrum hefur séð til þess að KR-ingar hafa lítið getað treyst á annan erlenda leikmanninn sinn.

KR-ingar eru komnir 0-1 undir á móti Snæfelli eftir 18 stiga tap á móti Snæfelli, 84-102, í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar. Tommy var í byrjunarliði KR í leiknum en hitti aðeins úr 3 af 13 skotum sínum á þeim 30 mínútum sem hann spilaði.

Það er eins og ekkert falli með Tommy þessa dagana og ástæðan gæti kannski verið tengd hreinni hjátrú í kringum númerið á keppnistreyjunni hans.

Tommy Johnson var í góðum gír framan af tímabili þegar hann lék í treyju númer 15 en hann var í því númeri fyrstu fjóra mánuði tímabilsins.

Tommy lék alls 14 deildarleiki í treyju númer 15 en hann skipti yfir í treyju númer 12 þegar Pavel Ermolinskij kom til liðsins og breytti svo yfir í treyju númer 7 þremur leikjum síðar.

Það er líka hægt að álykta sem svo að Tommy og Pavel nái ekki vel saman enda markar breytingin á hans leik einnig komu Pavels til KR. Hver sem ástæðan er þá er mikill munur á framlagi Tommy síðan að gaf Pavel eftir treyju númer 15.

Tommy var að skora 19,2 stig að meðaltali og hitta úr 39,7 prósent þriggja stiga skota sinna í treyju númer 15. Tommy var þá að skora 3,7 þrista að meðaltali í leik.

Tölurnar hans fóru niður í 15,7 stig í leik og 22,9 prósent þriggja stiga skotnýtingu í treyju númer tólf og hann hefur skilað enn minna í sex leikjum í treyju númer 7.

Tommy er aðeins með 8,8 stig að meðaltali og 22,9 prósent þriggja stiga skotnýtingu í sex leikjum sínum í sjöunni.

Framlagið hans í þessum leikjum hefur farið úr 15,4 í treyju fimmtán, í 10,7 í treyju tólf og loks niður í 5,3 framlagsstig í treyju sjö.



Tölfræði Tommy Johnson í deild og úrslitakeppni

Tommy í treyju fimmtán

Leikir: 14

Stig í leik: 19,2

Skotnýting: 40,1%

3ja stiga körfur í leik: 3,7

3ja stiga skotnýting: 39,7%

Víti fengin í leik: 5,0

Vítanýting: 81,7%

Framlag í leik: 15,4

Tommy í treyju tólf

Leikir: 3

Stig í leik: 15,7

Skotnýting: 25,9%

3ja stiga körfur í leik: 2,7

3ja stiga skotnýting: 22,9%

Víti fengin í leik: 3,7

Vítanýting: 100%

Framlag í leik: 10,7

Tommy í treyju sjö

Leikir: 6

Stig í leik: 8,8

Skotnýting: 28,3%

3ja stiga körfur í leik: 1,3

3ja stiga skotnýting: 22,9%

Víti fengin í leik: 2,0

Vítanýting: 91,7%

Framlag í leik: 5,3






Fleiri fréttir

Sjá meira


×