Körfubolti

Skarphéðinn: Búinn að vera ferskur á bekknum að bíða eftir tækifæri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skarphéðinn Freyr Ingason.
Skarphéðinn Freyr Ingason. Mynd/Vilhelm
Skarphéðinn Freyr Ingason hefur lifað tímanna tvenna með KR-ingum og er einn af þeim leikmönnum sem hafa verið með í báðum Íslandsmeistaraliðum félagsins síðustu þrjú ár. Skarphéðinn átti flotta innkomu í KR-liðið í 19 stiga sigri á Snæfelli í Hólminum í kvöld eftir að hafa fengið ekkert að spila í fyrsta leiknum.

„Palli sendi mig til Baham-eyja í endurnæringu þannig að ég er búinn að vera ferskur á bekknum að bíða eftir tækifæri. Það voru bara allir tilbúnir í þessum leik. Menn voru ekki tilbúnir að sitja við það sem gerðist í síðasta leik. Það voru allir alveg kolbrjálaðir og við sýndum hvað við getum," sagði Skarphéðinn léttur í leikslok.

Það kom honum ekkert á óvart að einvígið hafi byrjað á tveimur stórsigrum á útivelli en Snæfell vann fyrsta leikinn í DHL-höllinni með 18 stigum.

„Þetta er búið að gerast í þessum seríunum síðustu ár. Við vorum að vinna þá hérna í þar síðustu viku og við vorum ekkert smeykir um að við gætum ekki unnið þá hérna. Við vorum svekktir með að mæta eins og kerlingar þarna um daginn. Svona verður þetta og það verður hver og einn leikur í þessari seríu óútreiknanlegur. Það er bara það sem gerir þetta skemmtilegt og manni hlakkar núna til að fara á fætur á morgnanna," sagði Skarphéðinn sem var með 7 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar á 16 mínútum í kvöld.

„Palli vissi það alveg að hann var ekki að nota okkur neitt að viti í síðasta leik. Við töluðum um það að það yrðu allir að vera tilbúnir því það fengju allir eitthvað. Menn fóru með því hugarfari í leikinn að þeir fengju eitthvað að spila og ákváðu að nýta það," sagði Skarphéðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×