Handbolti

Kvennalið ÍR áfram starfrækt „ef plönin eru raunhæf“

Sindri Sverrisson skrifar
ÍR-ingar léku í Grill 66 deildinni í vetur þar til að hlé var gert í handboltanum vegna kórónuveirufaraldursins.
ÍR-ingar léku í Grill 66 deildinni í vetur þar til að hlé var gert í handboltanum vegna kórónuveirufaraldursins.

Sigurður Rúnarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR, greindi frá því á Stöð 2 Sport í síðustu viku að ákveðið hefði verið að leggja niður kvennalið félagsins sem og svokölluð U-lið karla og kvenna hjá félaginu. Karlaliðið, sem leikur í efstu deild, verður áfram til en hefur horft á eftir öflugum leikmönnum eftir að ákveðið var að ráðast í mikinn niðurskurð í rekstri deildarinnar.

Sigurður var í dag í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag þar sem hann var spurður út í þá miklu gagnrýni sem handknattleiksdeildin hefur fengið, meðal annars frá leikmönnum kvennaliðsins:

„Við förum ekki varhluta af þessum umræðum og við erum að hlusta. Við höfum rætt við leikmenn í kvennaboltanum og aðstandendur, og það er mjög jákvætt hve ofboðslega mikil grasrót er að koma í gang. Við höfum talað um það ef að það sjást raunhæfir möguleikar á borðinu þá er ekkert því til fyrirstöðu að endurskoða ákvörðunina,“ sagði Sigurður.

„Eins og við höfum sagt þá er þetta rekstrarleg niðurstaða og hún er ekki einföld. Stelpurnar eru búnar að leggja líf og sál í starfið undanfarin ár. Eins og við töluðum um um daginn þá er hluti af leikmannahópnum úr yngri flokkunum og 4. flokkurinn er gríðarlega efnilegur. Við höfum séð fyrir okkur að taka hlé á þessu liði og byggja upp, en miðað við viðbrögðin undanfarið þá er mikil stemning hérna í Breiðholtinu og við verðum bara að hlusta og skoða. Ef plönin eru raunhæf þá að sjálfsögðu endurskoðum við þetta,“ sagði Sigurður.

Klippa: Sigurður Rúnars um Kvennalið ÍR

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

ÍR dregur kvenna- og U-liðið úr keppni

Handknattleiksdeild ÍR hefur ákveðið að draga kvenna- og U-lið félagsins úr keppni á næstu leiktíð. Þetta staðfesti Sigurður Rúnarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR, í Sportinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×