Lífið

Heiður og stuðningur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Davíð Antonsson, Jökull Júlíusson, Rubin Pollock og Daníel Ægir Kristjánsson í hljómsveitinni Kaleo með verðlaunagrip eftir Ingu Elínu.
Davíð Antonsson, Jökull Júlíusson, Rubin Pollock og Daníel Ægir Kristjánsson í hljómsveitinni Kaleo með verðlaunagrip eftir Ingu Elínu. Mynd/Mosfellingur/RaggiÓla
„Við erum hreyknir af þessari útnefningu. Í henni felst mikill heiður og stuðningur sem okkur er mikilvægur í okkar heimabæ.

Bærinn útvegaði okkur líka æfingaaðstöðu þegar við vorum að byrja og það kom sér mjög vel,“ segir Davíð Antonsson, einn fjórmenninganna í hljómsveitinni Kaleo en hún telst í heild sinni bæjarlistamaður Mosfellsbæjar þetta árið. Með Davíð eru þeir Jökull Júlíusson, Daníel Ægir Kristjánsson og Rubin Pollock í sveitinni.

Kaleo skaust upp á stjörnuhimininn árið 2013. Hún hefur tekið þátt í Músíktilraunum, spilað á risatónleikum Rásar 2 á Menningarnótt, komið fram á Airwaves ásamt því að spila á tónleikum í Mosfellsbæ og víða um land.

Hún kom einnig, sá og sigraði á Hlustendaverðlaununum 2014 sem fram fóru í Háskólabíói. Þar vann hún til þrennra verðlauna. Loks hefur fyrsta plata sveitarinnar selst í yfir 5.000 eintökum og er því komin í gull.

„Við erum í smá fríi þessa dagana en eftir það förum við beint til London og spilum þar mjög athyglisvert gigg fyrir Bob Gruvin, frægan rokkljósmyndara. Sá tók meðal annars fræga mynd af Led Zeppelin við einkaþotuna og bjó með John Lennon á tímabili í New York. Hann ætlar að mynda okkur líka,“ segir Davíð kampakátur.

„Það er ýmislegt í gangi, ekki kannski rétti tíminn til að sleppa frá sér einhverjum fréttum í smáatriðum en það er margt í bígerð hjá okkur. Við erum til dæmis að vinna að nýrri plötu en hún kemur ekki út fyrr en á næsta ári.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.