Sport

Davíð mætir Golíat í kvöld

Fimm leikir verða á dagskrá í SS-bikarkeppni karla í handbolta í kvöld og þar á meðal er viðureign sem kölluð hefur verið Davíð gegn Golíat, en það er viðureign Fylkis 2 og aðalliðs Vals sem fram fer í Fylkishöll klukkan 20. "Þetta verður rosalegur leikur," sagði Sigmundur Lárusson, línumaður hjá Fylki 2. "Við erum með stjörnur eins og Sigga Sveins og Sveppa í liðinu hjá okkur og það er ókeypis inn á leikinn, þannig að ég á von á að fá fullt af fólki á leikinn. Siggi Sveins er búinn að gefa það út að hann skori í það minnsta 7 mörk í þessum leik," sagði Sigmundur, sem segir þessi lið hafa mæst í bikarnum fyrir nokkrum árum og þar hafi Valsmenn unnið leikinn á lokasprettinum þegar úthald mótherjanna var á þrotum, en að sögn Sigmundar er allur gangur á því í hvernig formi leikmenn liðsins eru. Annars eru fjórir aðrir leikir á dagskrá í kvöld. ÍR 2 tekur á móti HK í Austurbergi klukkan 18 og A-lið ÍR tekur á móti Víkingi á sama stað klukkan 20. Á Egilsstöðum taka heimamenn í Hetti á móti Þór frá Akureyri klukkan 19:30 og Grótta tekur á móti Aftureldingu á Seltjarnarnesi, en sá leikur hefust klukkan 19:15.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×