Veiði

Spáð í veiðisumarið: Laxveiðin lítur vel út

Svavar Hávarðsson skrifar
Í fyrra veiddust 1.934 laxar í Langá sem var aðeins minna en árið 2012 þegar 2.235 laxar veiddust í ánni.
Í fyrra veiddust 1.934 laxar í Langá sem var aðeins minna en árið 2012 þegar 2.235 laxar veiddust í ánni.
Það er útlit fyrir laxveiðisumar í góðu meðallagi að mati Guðna Guðbergssonar, fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun.

Guðni fræddi áhugasama veiðimenn um horfur komandi mánaða á síðasta opna kvöldi Stangveiðifélags Reykjavíkur á föstudagskvöld. Klakárgangarnir sem nú munu skila sér til baka eru að líkum minni en þeir sem komu á undan, svo menn eiga ekki von á annarri eins veislu eins og undanfarin þrjú, fjögur ár en engin ástæða er til annars, að mati Guðna, en að veiði geti orðið með ágætum.

Metárnar færa sig norður og austur úr


Veiðimenn gátu vel við unað í fyrrasumar. Einhverjir höfðu það á tilfinningunni að sumarið hefði ekki verið neitt sérstakt en hins vegar markast það af þeirri staðreynd að árin á undan voru metár.

Mjög athyglisvert er að skoða þróun veiðinnar frá sumrinu 2008 og árin á eftir. Metveiði var í mörgum ám árið 2008 og sérstaklega á Suðvesturlandi. Árið 2009 var metveiði í mörgum ám á Norðvesturlandi og árin 2010-2011 var metveiði í ám á Norðausturlandi. Besta veiðin virðist þannig byrja á Vesturlandinu og færa sig síðan norður og austur eftir. Aðspurður sagði Guðni að þetta sé ekkert nýtt og hafi áður sýnt sig.

Má hér minna á að að íslensku laxastofnarnir eru taldir til tveggja megin stofneininga. Laxastofninn á Suður- og Vesturlandi á margt sameiginlegt með líffræði stofna í Suður-Evrópu en stofninn á Norður- og Austurlandi á margt sameiginlegt með stofnum landa sem liggja norðar. Því er hegðun gönguseiða í góðæri nokkuð ólík á milli landsvæða en skilar sér í veiði á ólíkum tímum eftir því hvenær árgangarnir skila sér í sjó. Hvað þetta segir okkur um veiðina sumarið 2012 er hins vegar erfitt að ráða í og Guðni gaf mönnum engar tálvonir um framhaldið.

Stórlaxinn að skila sér aftur?


Á áttunda áratugnum veiddist svipaður fjöldi stór- og smálaxa hér á landi. Eftir köldu árin frá 1979 vel fram á níunda áratuginn gjörbreyttist samsetning veiðinnar. Því má draga þá ályktun að kuldakaflinn á þessum tíma hafi átt stóran þátt í því að breyta samsetningu laxastofnsins, ekki síst á Norðausturlandi. Hnignunin var stöðug til ársins 2006 en þá má greina batamerki.

Stórlax hefur orðið aftur meira áberandi í veiðinni og vonandi eru að verða umskipti til hins betra. Ekki má gleyma því að vísindamenn sjá breytingar í hafinu í kringum okkur líka, sem vonandi styrkir tveggja ára laxinn enn. Það er nefnilega svo að meirihlutinn af tveggja ára laxinum okkar eru hrygnur, en meirihlutinn af eins árs laxinum eru hængar. Kenningar eru uppi um það að seiðin séu „forrituð" áður en þau ganga til sjávar. Því hafi á undanförnum árum verið mikið af hrygnum sem hafi ætlað að vera tvö ár í sjó en ekki lifað sjávardvölina af vegna slæmra skilyrða.

Betri aðstæður fyrir lax í hafinu munu því að vonum skila fleiri og fleiri stórum öflugum hrygnum eftir tveggja ára sjávardvöl, sem eru góðar fréttir fyrir veiðimanninn í öllum skilningi. Einhverjar þeirra renna á fluguna sem þeim verður boðin og vonandi ná þær sem allra flestar að skila góðri hrygningu.

Þegar allt er talið


Hvernig þetta mun allt fara er ómögulegt að segja. Í því felst fegurðin í veiðimennskunni. En þegar allt er talið er engin ástæða til annars en að ganga til veiða með bjartsýnina að vopni. Bæði hyggjuvitið og fræðin byggja undir það.

 

Fróðleiksmolar

  • Hluti laxa lifir hrygninguna af og gengur aftur til sjávar. Á áttunda áratugnum er talið að um 20% hafi náð að komast aftur í sjó og því allnokkuð af laxi sem gekk til endurteknar hrygningar. Hreisturgreiningar sýna að hlutfallið er miklu mun lægra í dag.
  • Laxaseiði hundraðfaldar þyngd sína á einu ári. Stærstur hluti íslenska laxastofnsins snýr til baka eftir eitt ár í sjó en hluti eftir tvö ár sem stórlax. Norðarlega í Skandinavíu og í Rússlandi getur lax verið allt upp í fimm ár í sjó og verður því tröllvaxinn, á okkar mælikvarða.
svavar@frettabladid.is






×