Náttúruhamfarir í Asíu á síðasta ári og sterk staða japanska jensins eru sögð vera helstu ástæðurnar fyrir rekstrartapi tæknifyrirtækisins Sony á síðasta ári.
Tap fyrirtækisins nam 5.7 milljörðum dollara eða um 717 milljörðum króna á síðasta ári.
Framleiðslulínur Sony fóru úr skorðum í kjölfar jarðskjálftans við strendur Japan á síðasta ári. Þá urðu verksmiðjur fyrirtækisins í Tælandi fyrir stórfelldum skemmdum þegar flóð geisuðu í landinu í október.
Eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins í Asíu dróst síðan verulega saman í kjölfar hamfaranna.
En horfurnar eru góðar samkvæmt Sony. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að skila hagnaði á yfirstandandi reikningsári - þrátt fyrir að fyrirtækið eigi nú í harðvítugri baráttu á tölvuleikjamarkaðinum.
PlayStation 3 leikjatölvan hefur lengi verið ein helsta tekjulind Sony en tilkoma snjallsíma og spjaldtölva hafa breytt landslagi tölvuleikjamarkaðsins og hefur sala á leikjatölvunni dregist verulega saman á síðustu mánuðum.
Rekstrartap Sony aldrei verið hærra
