Viðskipti erlent

Reiði í garð Bakkavarar í Bretlandi vegna uppsagna

Mikil reiði ríkir í garð Bakkavarar í Bretlandi hjá verkalýðsfélagi í Lincolnshire eftir að Bakkavör ákvað að slíta viðræðum um hópuppsagnir í verksmiðju sinni í Spalding. Bakkavör er búin að segja 170 starfsmönnum upp í verksmiðjunni.

BBC hefur eftir Jennie Formby talsmanni Unite verkalýðsfélagsins að hún sé æf af reiði vegna þess að Bakkavör sleit viðræðum við félagið um uppsagirnar svona skömmu fyrir jólin. Viðræðunum var m.a. ætlað að koma í veg fyrir uppsagnirnar og leita annarra leiða við hagræðingu og sparnað. Bakkavör segir að viðræðurnar hafi leitt til þess að fyrirhuguðum uppsögnum hafi fækkað úr 350 og niður í 170.

Í verksmiðjunni eru framleiddir tilbúnir réttir, samlokur, salöt, súpur og sósur.

„Þeir eru búnir að skera grimmt niður laun upp á allt að 105 pund á viku og þeir hafa skorið niður orlofsgreiðslur og bónusa," segir Jennie Formsby. „Ef þeir hefðu minnstu sómatilfinningu ættu þeir að halda viðræðunum áfram og líta á allar leiðir til að bjarga þessum 170 störfum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×