Viðskipti erlent

Danskur hraðbanki spýtti úr sér 1.000 króna seðlum

Það varð uppi fótur og fit fyrir utan útibú Danske Bank í bænum Birkeröd í Danmörku í vikunni þegar hraðbanki fyrir utan útibúið fór skyndilega að spýta úr sér 1.000 kr. seðlum í gríð og erg.

Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að þetta hafi sem betur fer uppgvötvast fljótt af vegfarendum og einum af gjaldkerum útibúsins, Bo Söfeldt Hansen. Bo stökk yfir afgreiðsluborð sitt og út að hraðbankanum þar sem honum tókst að bjarga því sem bjargað varð.

Jyllands Posten segir að sem betur fer var um heiðvirða vegfarendur að ræða sem leið átti hjá og aðstoðuðu þeir Bo við að tína 1.000 kr. seðlana upp af götunni. Því tókst að safna þeim öllum saman og útibúið beið ekki skaða af.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hraðbanki á vegum Danske Bank tekur að spýta úr sér seðlum að ástæðulausu. Um er að ræða galla í tölvukerfi hraðbankanna sem veldur þessu þegar kerfið gefur bankanum ákveðnar skipanir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×