Heilsa

Forðast allar öfgar

Inga Kristjánsdóttir segir marga glíma við meltingatruflanir. Ástæðan er oft sú að ofneysla á ákveðinni tegund matar getur leitt til óþols fyrir henni.
Inga Kristjánsdóttir segir marga glíma við meltingatruflanir. Ástæðan er oft sú að ofneysla á ákveðinni tegund matar getur leitt til óþols fyrir henni. Fréttablaðið/GVA

Inga Kristjánsdóttir starfar sem næringarþerapisti en starf hennar gengur fyrst og fremst út á að bæta heilsu fólks með breyttu mataræði.

Undafarin ár hafa miklar breytingar átt sér stað varðandi meðvitund Íslendinga á heilsu og heilsusamlegu mataræði.

Í öllum matvöruverslunum er hægt að fá sojamjólk og speltbrauð og meira að segja í Bónus eru sérstakar hillur sem innihalda aðeins lífrænar matvörur. Veitingahús sem bjóða upp á lífrænt grænmetisfæði eru líka orðin ansi mörg, enda fer þar saman lögmálið um framboð og eftirspurn.



Inga Kristjánsdóttir, næringarþerapisti, er meðal þeirra sem hafa sitt aðalstarf af því að beina fólki inn á réttar brautir hvað varðar mataræði og heilsu. Titilinn næringarþerapisti öðlaðist hún eftir þriggja ára nám við CET eða Center for Ernæring og Terapi í Kaupmannahöfn, en þar í landi er næringarþerapisti lögverndað starfsheiti.



Hún segir níu af hverjum tíu sem til hennar koma vera konur og vandamálin margskonar. Til að greina rót vandans leggur Inga fram spurningalista sem tekur á mataræði og lifnaðarháttum og út frá svörunum greinir hún svo vandamál hvers og eins.



Af þeim sem til hennar koma greinast margir með óþol fyrir ákveðnum matartegundum, en slíkt kemur oft upp þegar ofneysla á sér stað.

„Mjög margir hafa myndað óþol fyrir einhverri tegund matar og það kemur oft til af því að vörunnar hefur verið neytt í óhóflegu magni. Ef sömu matvöru er neytt dag eftir dag í langan tíma, jafnvel oft á dag, þá aukast líkurnar á því að hún valdi óþoli,“ segir Inga og bendir um leið á að mjólkuróþol sé mjög algengt víða um heim en það sé misjafnt hvað það er í vörunni sem veldur óþoli.



„Til dæmis eru Asíu og Afríkubúar almennt með mikið óþol fyrir mjólkursykri, eða laktósa, en hér á Íslandi eigum við oft í vandræðum með að melta mjólkurprótein. Það hefur reyndar ekki verið gerð nein vísindaleg rannsókn á þessu, en stór hluti þeirra sem koma til mín bera öll einkenni þess að hafa óþol fyrir mjólkurpróteinum,“ útskýrir Inga, en einkenni slíks óþols lýsa sér meðal annars í mikilli slímframleiðslu í öndunarvegi, eyrnabólgum, meltingartruflunum og hósta.



Spurð að því hvort hún hafi orðið vör við að fólki þættu ráðleggingar hennar vera öfgar segist hún ekki beint hafa fundið fyrir því, „Ég reyni persónulega að forðast allar öfgar enda hef ég orðið vör við það borgar sig heldur að gera lítið og sjá af því árangur en að henda fólki út í einhverja laug sem það ræður ekki við að synda í. Ég hef sjálf prófað að fara út í öfgar með hluti og reynslan kenndi mér að það skilar engum sérstökum árangri. Allar öfgar eru slæmar, sama í hvaða átt þær fara. Hinsvegar er gott að finna hinn gullna meðalveg,“ segir hún að lokum.








×