Lífið

Manuela Ósk fann ástina á dansgólfinu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Manuela Ósk og Jón Eyþór ná vel saman á dansgólfinu og utan þess.
Manuela Ósk og Jón Eyþór ná vel saman á dansgólfinu og utan þess. Einkasafn/Marínó Flóvent

Manuela Ósk Harðardóttir er ein af þeim sem keppir í Allir geta dansað á Stöð 2. Fimm pör eru eftir og er keppnin orðin virkilega spennandi. Manuela Ósk hefur blómstrað í þáttunum og í þokkabót fann hún ástina í þessu ferli. Manuela Ósk og Jón Eyþór Gottskálksson eru nú par bæði innan og utan dansgólfsins. Jón Eyþór segir í samtali við fréttastofu að hann hafi verið skotinn í Manuelu Ósk frá árinu 2002 en þá var hún einmitt valin Ungfrú Ísland.

Í kvöld verður með símakosningunni safnað fyrir samtökin Ljónshjarta. Þessi samtök eru Manuelu Ósk mjög mikilvæg. Ljónshjarta eru samtök til stuðnings yngra fólki sem misst hefur maka og börnum þeirra. Sjálf missti Manuela Ósk föður sinn þegar hún var mjög ung.

„Ég tala nánast aldrei um föðurmissinn samt er það líklegast það atvik sem mótaði mig mest. Pabbi minn dó þegar ég var tveggja ára og ég ólst því upp með söknuð í eitthvað sem ég aldrei þekkti,“ segir Manuela Ósk.

Við fengum Manuelu Ósk til að svara nokkrum spurningum um keppnina Allir geta dansað.

Hvernig hefur verið fyrir þig að taka þátt í Allir geta dansað? 



„Þetta ferli hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Ég var vissulega stressuð og óviss í upphafi - og hugsaði reglulega „hvað er ég búin að koma mér út í“ en ég er svo þakklát fyrir að hafa látið vaða, þetta er búið að vera svo skemmtileg og þroskandi lífsreynsla.“ 

Hvaða danstegund er í uppáhaldi hjá þér og af hverju? 

„Ég hef haft betra vald á ballroom dönsunum - og af þeim sem ég hef dansað þá er tangó í uppáhaldi. Mér finnst samt allir dansarnir skemmtilegir á sinn hátt, og núna er ég alveg sjúk í rúmbu sem er einmitt næsti dans hjá okkur Jóni Eyþóri.“ 

Hvaða atriði er í uppáhaldi? 

„Ég er alveg rosalega stolt af öllu sem við höfum gert, en mér leið best þegar við dönsuðum tangó. Það var í jólaþættinum þannig að sviðið var svo fallegt og hátíðlegt og ég var líka mjög skotin i kjólnum sem ég var í. Öll þessi litlu atriði skipta máli því þegar manni líður vel þá skín það í gegn í dansinum.“

Manuela Ósk og Jón Eyþór í jólaþættinum.Vísir/Marínó Flóvent

Hvaða áskoranir hafa verið erfiðastar? 



„Líkamlegur styrkur var náttúrulega mjög lítill hjá mér í upphafi - og það var mikil áskorun að komast í gegnum langar og strangar æfingar. Ég er líka ekki vön að borða neitt voðalega mikið þannig að það voru smá viðbrigði að þurfa allt í einu að borða tvöfalt meira - til að halda orku! Svo hefur þetta tekið á mig andlega því ég hef verið mikið fjarverandi - vinna á daginn og dansa á kvöldin - og það bitnar á fjölskyldunni. En þau eru mitt stærsta stuðningslið og það er ómetanlegt að finna hvað þau eru stolt af mér.“ 

Hvað hefur þú lært af því að taka þátt í Allir geta dansað? 

„Ég hef lært að það geta allir dansað - og svo hef ég öðlast gífurlega virðingu fyrir dönsurum! Þvílíkt hæfileikafólk!“ 

Hvað hefur komið þér mest á óvart? 

„Hvað samkvæmisdans er erfið íþrótt og flókin. Maður gerir sér enga grein fyrir því sem áhorfandi.“ 

Hvaða áhrif hefur dansinn haft á líkamlega líðan þína? 

„Ef ég á að vera hreinskilin þá er líkamleg líðan akkúrat þessa stundina alveg hræðileg - ég er stíf, marin og bólgin - að drepast í baki og hné. En það er eðlilegt miðað við þessa keyrslu. Líkamlega hefur þetta samt gert kraftaverk fyrir mig - því ég var alltaf svo hokin en með dansinum hefur mér tekist að rétta úr mér og fá miklu betri líkamsstöðu.“ 

En andlega líðan? 

„Þetta er rússíbani. Ég áttaði mig samt fljótt á því að það eina sem skiptir raunverulega máli er að njóta - ekki leyfa stressinu að stela gleðinni. Ég veit að ég geri alltaf mitt besta miðað við aðstæður.“ 

Hvernig stuðning hefur þú fengið frá fólkinu í kringum þig? 

„Ómetanlegur. Ég á heimsins bestu börn sem eru svo stolt af mér. Amma mín stendur eins og klettur með mér í þessu, eins og öllu öðru - og svo á ég frábæra vini sem mynda mjög öflug klapplið. Ég gæti ekki verið heppnari.“ 

Hefur dansáhuginn „smitast“ í aðra fjölskyldumeðlimi eða vini? 

„Heldur betur - sérstaklega Elmu Rós, dóttur mína - en núna heimtar hún að fá einkatíma hjá Jóni Eyþóri og verða dansstelpa.“ 

Ætlar þú að halda áfram að dansa eftir þessa keppni? 

„Ef Jón Eyþór nennir að dansa við mig áfram.“


Tengdar fréttir

Manuela og Jón unnu danseinvígið með þessum dansi

Eyjólfur Kristjánsson og Telma Rut Sigurðardóttir voru send heim eftir danseinvígi í Allir geta dansað nú í kvöld. Eyfi og Telma og Manuela og Jón Eyþór voru í tveimur neðstu sætunum eftir að símakosningu lauk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.