Körfubolti

Ótrúlegur fjöldi meiðsla hjá KR í vetur | Eins og það séu álög á okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ingi Þór hefur eðlilega áhyggjur af stöðu síns liðs.
Ingi Þór hefur eðlilega áhyggjur af stöðu síns liðs. vísir/daníel þór

Ástandið í herbúðum Íslandsmeistara KR í körfubolta er ekki gott en nú síðast meiddist Króatinn Dino Cinac mjög alvarlega á auga.

„Hann fékk þumalinn á Mike Craion á kaf í augað á æfingu. Hann fékk stóran skurð undir augað, himna rifnaði og augnbotninn brotnaði. Hann sér tvöfalt og ástandið á honum ekki gott,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, áhyggjufullur.

„Það kemur í ljós eftir viku hvort að hann þurfi að fara í aðgerð. Framhaldið er óljóst hjá honum en þetta eru erfið og alvarleg meiðsli.“

KR-ingar sömdu á dögunum aftur við Mike DiNunno sem var stórkostlegur með KR í fyrra. Hann var þá meiddur en átti að vera tilbúinn í mars. Það er ekki að fara að ganga eftir.

„Hann fór í ökklaaðgerð á Spáni og fór svo heim til Bandaríkjanna. Hann ætlaði að vera kominn til okkar en læknirinn hans í Bandaríkjunum bannaði honum að fara. Hann átti að geta byrjað að spila í mars en það er ekki að fara að gerast. Mike er byrjaður að æfa en hvenær hann getur spilað körfubolta kemur í ljós síðar. Við höfum samt ekki afskrifað hann,“ segir þjálfari Íslandsmeistara síðustu sex ára.

Meiðslasaga KR-liðsins í vetur er með ólíkindum en felstir lykilmenn liðsins hafa meira og minna verið laskaðir í vetur. Björn Kristjánsson mun ekki spila meira og bræðurnir Jakob Örn og Matthías Orri Sigurðarsynir eru báðir að glíma við meiðsli. Michael Craion er með beinbjúgu í hnénu og Jón Arnór er ekki upp á sitt besta frekar en Kristófer Acox sem var frá um tíma á dögunum.

„Þetta er búinn að vera asnalegur vetur. Í raun hefur þetta verið algjört grín. Ég hef aldrei lent í svona á 30 ára ferli. Það er eins og það séu einhver álög á okkur. Eins og einhver sé með Vúdú-dúkkur að meiða okkur,“ segir Ingi Þór svekktur.

KR á mjög mikilvæga leiki á næstu dögum. Um helgina spilar liðið í Njarðvík og á föstudaginn eftir viku tekur liðið á móti Stjörnunni í DHL-höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×