Uppsjávarveiðiskipin Hákon EA og Bjarni Ólafsson AK fara í loðnuleitina í næstu viku ásamt hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og önnur skip verða til taks síðar. Ætlunin er að ná mælingu í janúar og aftur í fyrri hluta febrúar og verða niðurstöður þeirra notaðar til grundvallar fyrir fiskveiðráðgjöf vetrarvertíðarinnar, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.
„Í febrúar verða einnig tvö veiðiskip með Árna Friðrikssyni í mælingum. Eins og gefur að skilja stjórnast gangur mælinga af veðrum og vindum á þessum árstíma sem og dreifingu loðnu. Því er ómögulegt að segja til um hvenær fyrstu niðurstöður munu liggja fyrir,“ segir stofnunin.
Óvissa hefur verið um þátttöku útgerða í leitinni en í fyrradag tókst samkomulag milli Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem felur í sér að útgerðir uppsjávarskipa leggja til skip í samtals 30 daga, tvö skip í senn með það fyrir augum að ná tveimur góðum mælingum.

„Hafrannsóknastofnun stýrir leitinni og mælingum. Kostnaður útgerðanna sem af þessu hlýst er um 60 milljónir króna og leggur Hafrannsóknastofnun fram 30 milljónir. Ráðherra og ráðuneyti styðja þetta samkomulag,“ segir stofnunin.
„Hafrannsóknastofnun hefur ótvírætt hlutverk að stunda stofnmælingar á loðnu líkt og á öðrum nytjastofnum og á grunni þeirra að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar úr þeim. Það var mat Hafrannsóknastofnunar að þörf væri á að fá tvö skip í tvær mælingar frá útgerðinni auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar,“ segir ennfremur.
Fram kemur að rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson sé á leið í slipp með bilaða vél. Þar að auki sé Bjarni óhentugur í loðnuleit vegna smæðar sinnar og þess utan ekki með fellikjöl. Því sé hann fljótt sleginn út í bergmálsmælingum ef eitthvað sé að veðri og sjólagi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í gær um loðnuleitina: