Körfubolti

Borche: KR er með góðar skyttur og ef þú skilur þá eftir opna skora þeir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borche var ekki ánægður með varnarleik ÍR í Vesturbænum.
Borche var ekki ánægður með varnarleik ÍR í Vesturbænum. vísir/daníel
Borche Ilievski, þjálfari ÍR, sagði að bensínið hafi verið búið undir lokin hjá sínum mönnum í tapinu fyrir KR í kvöld, 120-92.

„Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af leiknum en við höfðum ekki orku í lokin. Við áttum í miklum vandræðum í vörninni,“ sagði Borche í samtali við Vísi eftir leik.

„Ég vil einblína á jákvæðu hlutina. Ég fékk meira en ég bjóst við frá Danero [Thomas] sem hefur lítið æft undanfarna daga. Georgi [Boyanov] og Evan [Singletary] voru góðir, ungu strákarnir stóðu sig vel og Daði [Berg Grétarsson] barðist eins og alltaf.“

Vörn ÍR-inga var slök og KR-ingar áttu ekki í neinum vandræðum með að opna hana.

„Við gerðum fullt af mistökum, sérstaklega í vörninni. Við hjálpuðum of mikið og gáfum þeim mörg opin skot. KR er með góðar skyttur og ef þú skilur þá eftir opna skora þeir,“ sagði Borche.

Leikurinn var nokkuð jafn þar til í 4. leikhluta sem KR vann, 33-15.

„Okkur vantaði orku og kraft. Úrslitin sýna ekki hvernig leikurinn var en þetta var öruggur sigur KR og ég óska þeim til hamingju,“ sagði Borche að lokum.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×