Falskar forsendur 13. desember 2004 00:01 Allmörgum rannsóknarnefndum hefur verið komið á fót í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem ætlað er að upplýsa hvernig svo hrapallega tókst til að til innrásar kom í Írak á gersamlega fölskum forsendum: Saddam átti engin gereyðingarvopn og engin tengsl fundust milli hans og al Kaída. Spurningin er hvort allar amerísku leyniþjónusturnar, með sínum 30 þúsund starfsmönnum, brugðust, eða voru það stjórnmálamennirnir sem ákváðu forsendurnar og létu hagræða sönnunargögnum svo þau féllu að óskhyggju þeirra? James Bamford heitir bandarískur blaðamaður, sérfróður um málefni Öryggisráðs Bandaríkjanna (NSA), sem hefur skrifað um það bækur. Nýlega kom út eftir hann bókin "Átylla fyrir stríði: 11. 9., Írak og misnotkun amerískra njósnastofnana". Þar vitnar hann til nafnlausrar heimildar, starfsmanns hjá Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), sem unnið hafði með upplýsingar varðandi gereyðingarvopn Íraka og sagði honum: "Ég sá aldrei nokkurn skapaðan hlut", sem sannaði að Saddam hefði eða væri að þróa gereyðingarvopn "og enginn annar hjá stofnuninni heldur". Innan stofnunarinnar voru það viðtekin sannindi að sú skúffa væri tóm. En síðla árs 2002, á sama tíma og eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna voru að senda skýrslur frá Írak þess efnis að þeir fyndu engin bönnuð vopn né áætlanir um að afla þeirra, voru bandarísk stjórnvöld farin að gefa sér gereyðingarvopn Saddams sem forsendu fyrir stríði. Hinn kunni rannsóknarblaðamaður Washington Post, Bob Woodward, segir í sinni bók "Árásaráætlun" að þeir George Tenet, yfirmaður CIA, og John McLaughlin aðstoðarmaður hans hafi komið á skrifstofu forsetans 21. desember 2002 og lagt fram þau gögn sem þeir höfðu um gereyðingarvopn Saddams. Þá varð Bush að orði hvort þetta væri allt og sumt. "Kýlum á það," svaraði Tenet. Þetta hafði þau áhrif að öllum skúffum var snúið á hvolf í þeirri deild CIA sem annast vopnaeftirlit, takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna og hömlur á vopnasölu, sem venjulega er kölluð WINPAC. Þarna vann hinn nafnlausi heimildarmaður Bamfords um áramótin 2002-03. Í janúar kallaði yfirmaður deildarinnar saman um fimmtíu manns á fund í því skyni að skjóta stoðum undir málatilbúnaðinn um gereyðingarvopnin. Bamford segir í "Átyllunni fyrir stríði" að skilaboð yfirmannsins hafi verið skýr: "Standiði klárir á því, að ef Bush vill fara í stríð, þá er það ykkar djobb að finna haldbæra ástæðu". Þessi nafnlausi heimildarmaður Bamfords fékk þvílíka óbeit á þessum málflutningi að hann hætti hjá WINPAC, fékk starf hjá annarri njósnastofnun og slapp við að bera vitni fyrir rannsóknarnefndunum, sem ætlað var að fara ofan í saumana á aðdraganda innrásarinnar, sem réttlætt var með fullvissu um gereyðingarvopn Saddams. En Jami Miscik, yfirmaður greiningardeildar upplýsinga hjá CIA, bar það fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar að mikill samgangur hefði verið milli starfsmanna CIA og þeirra er stefnuna mótuðu, þar á meðal Dick Cheney varaforseta. Á árinu fyrir stríðið heimsótti Cheney höfuðstöðvar CIA átta sinnum til að ræða gereyðingarvopnin. Miscik viðurkenndi að svona ítrekaðar heimsóknir lýstu, ef ekki þrýstingi, þá að minnsta kosti tregðu stjórnvalda til að taka gild svör sérfræðinganna um kjarnorkuvopnaáætlun Saddams. Störf leyniþjónustu byggja á því að hún sé alls óháð valdhöfum, þannig að hún geti byggt ráðleggingar sínar á staðreyndum. En reyndin hefur verið sú að valdamenn reyna að fá njósnara sína til að segja það sem þeim hentar hverju sinni. Svo skjóta valdhafarnir sér á bak við þá leynd sem yfir þessu starfi verði að hvíla og verjast þannig allra frétta. Ef allt fer úrskeiðis má skella skuldinni á lélegar ráðleggingar frá leyniþjónustunni og láta nokkra yfirmenn hennar taka á sig sökina með því að víkja þeim úr starfi. Margt bendir til að þetta eigi við í þessu tilfelli, eins og koma mun í ljós eftir því sem fleiri fyrrum starfsmenn CIA ákveða að leysa frá skjóðunni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Strætó fær sérakrein á Kringlumýrarbraut Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun
Allmörgum rannsóknarnefndum hefur verið komið á fót í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem ætlað er að upplýsa hvernig svo hrapallega tókst til að til innrásar kom í Írak á gersamlega fölskum forsendum: Saddam átti engin gereyðingarvopn og engin tengsl fundust milli hans og al Kaída. Spurningin er hvort allar amerísku leyniþjónusturnar, með sínum 30 þúsund starfsmönnum, brugðust, eða voru það stjórnmálamennirnir sem ákváðu forsendurnar og létu hagræða sönnunargögnum svo þau féllu að óskhyggju þeirra? James Bamford heitir bandarískur blaðamaður, sérfróður um málefni Öryggisráðs Bandaríkjanna (NSA), sem hefur skrifað um það bækur. Nýlega kom út eftir hann bókin "Átylla fyrir stríði: 11. 9., Írak og misnotkun amerískra njósnastofnana". Þar vitnar hann til nafnlausrar heimildar, starfsmanns hjá Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), sem unnið hafði með upplýsingar varðandi gereyðingarvopn Íraka og sagði honum: "Ég sá aldrei nokkurn skapaðan hlut", sem sannaði að Saddam hefði eða væri að þróa gereyðingarvopn "og enginn annar hjá stofnuninni heldur". Innan stofnunarinnar voru það viðtekin sannindi að sú skúffa væri tóm. En síðla árs 2002, á sama tíma og eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna voru að senda skýrslur frá Írak þess efnis að þeir fyndu engin bönnuð vopn né áætlanir um að afla þeirra, voru bandarísk stjórnvöld farin að gefa sér gereyðingarvopn Saddams sem forsendu fyrir stríði. Hinn kunni rannsóknarblaðamaður Washington Post, Bob Woodward, segir í sinni bók "Árásaráætlun" að þeir George Tenet, yfirmaður CIA, og John McLaughlin aðstoðarmaður hans hafi komið á skrifstofu forsetans 21. desember 2002 og lagt fram þau gögn sem þeir höfðu um gereyðingarvopn Saddams. Þá varð Bush að orði hvort þetta væri allt og sumt. "Kýlum á það," svaraði Tenet. Þetta hafði þau áhrif að öllum skúffum var snúið á hvolf í þeirri deild CIA sem annast vopnaeftirlit, takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna og hömlur á vopnasölu, sem venjulega er kölluð WINPAC. Þarna vann hinn nafnlausi heimildarmaður Bamfords um áramótin 2002-03. Í janúar kallaði yfirmaður deildarinnar saman um fimmtíu manns á fund í því skyni að skjóta stoðum undir málatilbúnaðinn um gereyðingarvopnin. Bamford segir í "Átyllunni fyrir stríði" að skilaboð yfirmannsins hafi verið skýr: "Standiði klárir á því, að ef Bush vill fara í stríð, þá er það ykkar djobb að finna haldbæra ástæðu". Þessi nafnlausi heimildarmaður Bamfords fékk þvílíka óbeit á þessum málflutningi að hann hætti hjá WINPAC, fékk starf hjá annarri njósnastofnun og slapp við að bera vitni fyrir rannsóknarnefndunum, sem ætlað var að fara ofan í saumana á aðdraganda innrásarinnar, sem réttlætt var með fullvissu um gereyðingarvopn Saddams. En Jami Miscik, yfirmaður greiningardeildar upplýsinga hjá CIA, bar það fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar að mikill samgangur hefði verið milli starfsmanna CIA og þeirra er stefnuna mótuðu, þar á meðal Dick Cheney varaforseta. Á árinu fyrir stríðið heimsótti Cheney höfuðstöðvar CIA átta sinnum til að ræða gereyðingarvopnin. Miscik viðurkenndi að svona ítrekaðar heimsóknir lýstu, ef ekki þrýstingi, þá að minnsta kosti tregðu stjórnvalda til að taka gild svör sérfræðinganna um kjarnorkuvopnaáætlun Saddams. Störf leyniþjónustu byggja á því að hún sé alls óháð valdhöfum, þannig að hún geti byggt ráðleggingar sínar á staðreyndum. En reyndin hefur verið sú að valdamenn reyna að fá njósnara sína til að segja það sem þeim hentar hverju sinni. Svo skjóta valdhafarnir sér á bak við þá leynd sem yfir þessu starfi verði að hvíla og verjast þannig allra frétta. Ef allt fer úrskeiðis má skella skuldinni á lélegar ráðleggingar frá leyniþjónustunni og láta nokkra yfirmenn hennar taka á sig sökina með því að víkja þeim úr starfi. Margt bendir til að þetta eigi við í þessu tilfelli, eins og koma mun í ljós eftir því sem fleiri fyrrum starfsmenn CIA ákveða að leysa frá skjóðunni.