Sara Sigmundsdóttir er ótrúleg íþróttakona en mynd frá Wodapalooza CrossFit mótinu lætur hana hreinlega líta út eins og töfrakonu líka.
Sara vann glæsilegan sigur í „Miami Heat“ greininni á Wodapalooza CrossFit mótinu en hún kláraði hana á einni mínútu og 17 sekúndum. Þetta var eina greinin sem Sara vann á mótinu og á endanum var Suðurnesjamærin að sætta sig við annað sætið í mótinu á eftir Tiu-Clair Toomey.
Það réð aftur á móti enginn við hana í greininni sem var kannski skírð eftir NBA-liði Miami borgar. Sara var sjö sekúndum á undan næstu konu og heilum sextán sekúndum á undan Tiu-Clair Toomey sem kláraði á einni mínútu og 33 sekúndum.
Á umræddri „töframynd“ sést Sara vera að koma í mark í „Miami Heat“ en greinin endaði á framstigi með 68 kílóa stöng. Sara kom á fleygiferð í mark en stöngin hafði þyngst í hverri umferð.
Sara er búin að klára síðasta framstigið en var ekkert að eyða tíma í að bíða eftir að stöngin færi í jörðina heldur teygir sig í lokahnappinn.
Ljósmyndarinn fangar þessa stund þar sem lítur út fyrir að þessi 68 kílóa stöng sé í lausu lofti.
Það er því ekkert skrýtið að þeir sem tjá sig um myndina af Söru vitni bæði í Holmes og Harry Potter.
„Vissi ekki að Hogwarts-skólinn væri í CrossFit,“ skrifar einn og „Wingardium Leviosa,“ skrifar annar. Sá fyrsti skrifaði aftur á móti „That’s levitation Holmes.”
Meira en þrettán þúsund og fimm hundruð manns hafa sagt vera hrifin af myndinni á Instagram síðu Wodapalooza.
Þessa mögnuðu mynd má sjá hér fyrir neðan.
