Viðskipti innlent

3500 uppsagnir í 32 hópuppsögnum undanfarinn sólarhring

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Egill

Um þrjú þúsund og fimm hundruð hafa misst vinnuna í 32 tilkynntum hópuppsögnum síðasta sólarhringinn. Flest fyrirtækjanna sem tilkynnt hafa um hópuppsagnir eru fyrirtæki í ferðaþjónustu. Von er á því að bætist í uppsagnir í dag á þessum síðasta virka degi aprílmánaðar.

Rúmlega tvö þúsund starfsmenn Icelandair misstu vinnuna í stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar á þriðjudaginn. Hópuppsögnin var tilkynnt til Vinnumálastofnunar í dag. Við bættust þúsund uppsagnir yfir daginn í gær og enn hefur bæst í framan af degi í dag. 

Langflestar uppsagnir þessa dagana eru hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu enda enga ferðamenn að finna vegna takmarkana á ferðalögum sökum kórónuveirufaraldursins.

53 eftir hjá Airport Associates

Airport Associates, sem veitir flugafgreiðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli, sagði upp 131 starfsmanni í dag. 53 starfsmenn eru eftir hjá fyrirtækinu. 

Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri fyrirtækisins, segist sannfærður um að fyrirtækið komist í gegnum þennan skafl. Það byggi á sterkum stoðum og hafi verið lengi í rekstri. Þá muni verulega um aðstoð ríkisins en stjórnvöld greiða 85 prósent af launum á uppsagnarfrestinum eins og kynnt var á blaðamannafundi á þriðjudaginn.

Vonast hann til að geta endurráðið fólk í störfin svo fljótt sem kostur er.

Fram hefur komið að greiðslur úr atvinnuleysistryggingastjóði gætu dregist um mánaðamótin vegna mikils álags hjá stofnuninni.


Tengdar fréttir

Tíu ráð til að takast á við óvænt atvinnuleysi

Þótt uppsagnir hafi verið fyrirsjáanlegar víða er höggið alltaf mikið fyrir fólk sem missir vinnuna. Ekki síst nú þegar fyrirséð er að lítið verður um nýráðningar í atvinnulífinu næstu mánuði. Hér eru tíu ráð sem geta hjálpað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×