Handbolti

Ágúst getur komist í hóp með Viðari á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari karlaliðs Gróttu.
Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari karlaliðs Gróttu. Mynd/Anton

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari karlaliðs Gróttu, er þegar búinn að endurskrifa bikarúrslitaleikjasöguna með því að fara með B-deildarlið alla leið í úrslitaleikinn. Hann getur einnig orðið aðeins annar þjálfarinn í sögu bikarkeppni handboltans til þess að gera bæði karlalið og kvennalið að bikarmeisturum, vinni Grótta bikarinn í Laugardalshöllinni á morgun.

Ágúst gerði kvennalið Vals að bikarmeisturum á 23 ára afmælisdaginn sinn 19. febrúar árið 2000. Valur vann þá Gróttu/KR í úrslitaleiknum 27-23 en nú hafa hlutirnir snúist við og hann mætir með Gróttuliðið í leik á móti Val.

Sá eini sem hefur gert bæði karla- og kvennalið að bikarmeisturum er Viðar Símonarson. Viðar gerði fyrst karlalið Hauka að bikarmeisturum 1980 og Stjörnukonur unnu síðan bikarinn undir hans stjórn níu árum síðar. Í bæði skiptin var um fyrsta bikarmeistaratitil félaganna að ræða.

Karlalið Hauka þurfti tvo leiki til þess að tryggja sér bikarinn fyrir 29 árum en leika þurfti annan úrslitaleik eftir að liðið gerði 18-18 jafntefli við KR í fyrri leiknum. Haukar unnu seinni leikinn 22-20 viku síðar.

Stjarnan vann 19-18 sigur á FH í bikarúrslitaleik kvenna árið 1989. Viðar var þó að reyna að gera kvennalið að bikarmeisturum þriðja árið í röð en FH (1987) og Stjarnan (1988) höfðu bæði þurft að sætta sig silfrið þegar Viðar fór með þau í Höllina árin á undan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×