Innlent

Aðeins einn í heimakennslu hér á landi

MYND/GETTY
Afar lítill áhugi virðist vera á heimakennslu á Íslandi, en aðeins einn nemandi hefur notið heimakennslu eftir að ný lög um grunnskóla tóku gildi árið 2008.

Í lögum um grunnskóla er foreldrum gefinn kostur á að sækja um undanþágu frá almennri skólaskyldu og kenna börnum sínum heima. Það er viðkomandi sveitarfélag sem veitir undanþáguna, enda grunnskólar á forræði sveitarfélaga, en margvísleg skilyrði eru fyrir heimild til heimakennslu.

Til dæmis þurfa foreldrarnir að semja námskrá heimakennslunnar, leggja fram gögn um menntun þess sem annast heimakennsluna, en viðkomandi þarf að vera með kennslurétindi auk þess sem ákveðið eftirlit er haft með kennslunni og framvindu námsins.

Síðan þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 2008 hefur menntamálaráðuneytinu aðeins borist ein tilkynning um að heimakennsla sé til staðar í grunsnkólum, en hún tók til eins grunnskólanemanda á skólaárinu 2008 til 2009.

Til samanburðar naut um ein og hálf milljón nemenda, eða tæp þrjú prósent, heimakennslu í Bandaríkjunum, samkvæmt síðustu tölum, en þar er mun meiri hefð fyrir heimakennslu en hér.

Áður en nýju grunnskólalögin tóku gildi var það menntamálaráðuneytið, en ekki sveitarfélögin, sem veitti heimild til heimakennslu. Það var fyrst gert árið 2004 vegna fjögurra barna. Heimildin var síðan endurnýjuð í kjölfar úttektar á verkefninu til loka skólaárs 2007 til 2008, og tók þá til tveggja barna.

Einni formlegri umsókn var hafnað þar sem skilyrði um kennaramenntun var ekki uppfyllt af umsækjendum. Ráðuneytinu bárust á þessum tíma nokkrar fyrirspurnir um heimakennslu sem ekki leiddu til formlegra umsókna.

Í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu er þó tekið fram að undir heimakennslu falla ekki ýmis önnur úrræði gagnvart einstökum nemendum með sérþarfi, t.d. vegna sjúkrakennslu eða einkakennslu nemenda sem vísað hefur verið úr skóla tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×