Innlent

Sameinaðir skólar fá ný nöfn

Sameinaðar skólastofnanir í Reykjavík munu þurfa að finna ný nöfn, en að öllum líkindum munu gömlu nöfnin einnig fá að halda sér. Á myndinni sést Hvassaleitisskóli sem mun sameinast Álftamýrarskóla. Fréttablaðið/GVA
Sameinaðar skólastofnanir í Reykjavík munu þurfa að finna ný nöfn, en að öllum líkindum munu gömlu nöfnin einnig fá að halda sér. Á myndinni sést Hvassaleitisskóli sem mun sameinast Álftamýrarskóla. Fréttablaðið/GVA
Menntaráð Reykjavíkur samþykkti í síðustu viku tillögu um að við sameiningu leikskóla eða grunnskóla verði fundið nýtt nafn á nýjan skóla. Það mun strax hafa áhrif á fjölmarga skóla þar sem fyrsta lota sameininga í skólakerfi borgarinnar tekur gildi strax á morgun.

Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri í Reykjavík, segir í samtali við Fréttablaðið að þrátt fyrir þetta sé um leið líklegt að gömlu nöfnin fái að halda sér. „Stjórnsýslueiningin mun skipta um nafn en ég held að íhaldssemi okkar sé það mikil að við munum halda gömlu nöfnunum líka," segir Ragnar og vísar til nágrannabæjarins Seltjarnarness, þar sem enn sé talað um Valhúsaskóla og Mýrarhúsaskóla þótt þeir hafi sameinast.

Ragnar segist ekki óttast neikvæð viðbrögð vegna þessara breytinga þrátt fyrir að mörgum þyki auðvitað vænt um gömlu nöfnin. Einn grunnskóli hefur þegar skipt um nafn. Öskjuhlíðarskóli og Safamýrarskóli sameinuðust í húsnæði þess fyrrnefnda og heitir nýi skólinn Klettaskóli. Ragnar segist engin viðbrögð hafa fengið við þeirri breytingu.

Ragnar Þorsteinsson


Hann bætir við að þörf sé á nýju nafni vegna þess að sérstök stjórnsýsla í kringum sameinaða stofnun kalli á eitt nafn. Auk þess þyki það ekki góð hugmynd að hygla einu eldra skólanafni umfram annað.

Skipaður verður starfshópur um ný nöfn á skólana, en leitað verður hugmynda frá grenndarsamfélagi hvers skóla áður en ákvarðanir verða teknar.

Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks voru ekki sáttir við tillöguna og sögðu í bókun á fundi ráðsins að þeir hefðu frekar kosið að sameinaðir skólar hefðu val um hvort ný nöfn væru tekin upp eða þeim gömlu haldið. „Til að mynda er ekki endilega eðlilegt að leikskólarnir Berg og Bakki sem eru sameinaðir og staðsettir tugi kílómetra frá hvorum öðrum [í Grafarvogi og á Kjalarnesi] séu með sömu nöfnin," segir í bókuninni. Þessir leikskólar skiptu þó um nafn í byrjun maí og heita nú Bakkaberg.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×