Innlent

Reyna að planka sig upp í hæstu einkunn

Tveir Íslendingar og Breti planka við fræg kennileiti í Árósum til að hljóta hæstu einkunn fyrir skólaverkefni. Gjörningurinn hefur vakið athygli einnar af stærstu sjónvarpsstöðvum Danmerkur.

Strákarnir stunda nám við viðskiptaháskólann í Árósum en þeir fengu það verkefni í samfélagsmiðlunar-áfanga að markaðssetja síðu tengda borginni á samskiptavefnum Facebook. Níu hópar keppa sín á milli og fer einkunnagjöfin eftir vinsældum. Sá hópur sem fær flesta til að líka við sína síðu hlýtur hæstu einkunn.

"Við erum semsagt núna í öðru sæti í þessari keppni. Hópurinn sem er í fyrsta sæti hefur tillögu um að breyta Árósum í höfuðborg Danmerkur" segir Gunnar Ingi Svansson, einn plankaranna. Mjótt er þó á munum og ljóst að afar spennandi úrslit eru framundan. Um 300 manns hafa líkað við síðu strákanna en Gunnar telur að fjöldinn þurfti að tvöfaldast til að þeir beri sigur úr býtum. "Keppnin endar á mánudaginn og við erum að reyna að spýta í lófana."

Gunnar segir plankið ekki vera þekkt í Danmörku og því hafi síðan vakið athygli. Og í raun svo mikla athygli að ein stærsta sjónvarpsstöð Danmerkur TV2 hefur óskað eftir viðtali og vill sjá hvernig plankið er framkvæmt.

Gunnar segist aldrei hafa unnið að jafn skemmtilegu verkefni á sínum námsferli þó að það hafi tekið talsverðan tíma. Facebook-síðu hópsins er að finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×