Erlent

Tekur við af Dalaí Lama

Lobsang Sangay verður pólitískur leiðtogi Tíbeta þótt Dalaí Lama verði áfram trúarleiðtogi þeirra.fréttablaðið/AP
Lobsang Sangay verður pólitískur leiðtogi Tíbeta þótt Dalaí Lama verði áfram trúarleiðtogi þeirra.fréttablaðið/AP
Lobsang Sangay, þjóðréttarfræðingur menntaður í Harvard, verður forsætisráðherra útlagastjórnar Tíbeta á Indlandi. Hann tekur því við af Dalaí Lama sem pólitískur leiðtogi Tíbeta.

Sangay hlaut 55 prósent atkvæða í kosningu, sem efnt var til meðal útlægra Tíbeta um heim allan. Tenzin Tethong, fyrrverandi talsmaður Dalaí Lama í Bandaríkjunum, kom næstur og fékk 37 prósent atkvæða.

Dalaí Lama verður stöðu sinnar vegna áfram trúarleiðtogi Tíbeta. Hann nýtur mikillar virðingar svo óljóst er hve mikil raunveruleg völd nýkjörni forsætisráðherrann fær.

Dalaí Lama hefur hins vegar sagt að samningaviðræður útlaga Tíbeta við kínversk stjórnvöld gætu orðið auðveldari, ef Kínverjar fái einhvern annan að ræða við en sig.

Kínverskum stjórnvöldum er mjög uppsigað við Dalaí Lama og vilja líklega fá að hafa áhrif á hvaða drengur verður valinn til að verða arftaki hans, þegar hann fellur frá.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×