Erlent

Obama stokkar upp í yfirstjórn hermála

Obama og Panetta Leon Panetta hefur verið yfirmaður CIA í tvö ár. nordicphotos/AFP
Obama og Panetta Leon Panetta hefur verið yfirmaður CIA í tvö ár. nordicphotos/AFP
Talið er að miklar mannabreytingar verði í yfirstjórn Bandaríkjahers og leyniþjónustunnar CIA í sumar í tengslum við varnarmálaráðherraskipti, sem fyrirhuguð eru þegar Robert Gates hættir.

Búist er við því að Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynni í dag að Leon Panetta, yfirmaður leyniþjónustunnar CIA, muni taka við af Gates, en David Petraeus, sem er yfirmaður fjölþjóðahersins í Afganistan, komi í staðinn fyrir Panetta hjá CIA.

Þá er reiknað með að herforinginn John Allen taki við af Petraeus sem yfirmaður hersveita NATO í Afganistan, en Ryan Crocker verði sendiherra Bandaríkjanna í Afganistan.

Bandaríska fréttastofan AP fullyrðir þetta, og vísar í ónafngreinda heimildarmenn bæði innan og utan Bandaríkjastjórnar.

Gates hefur lýst því yfir að hann muni hætta sem varnarmálaráðherra fyrir árslok, og miðar þá við að ráðherraskiptin verði gengin um garð áður en kosningabarátta fer í gang af fullum krafti fyrir næstu forsetakosningar, sem verða haldnar haustið 2012.

Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að samþykkja val forsetans í embætti varnarmálaráðherra, og er Obama sagður stefna á að Panetta komi fyrir þingnefnd á næstu mánuðum.

Talið er að Panetta hafi orðið fyrir valinu sem varnarmálaráðherra bæði vegna þess að hann hefur langa reynslu af störfum við stjórnsýsluna í Washington, meðal annars af fjárlagagerð og sem starfsmannastjóri Bills Clinton forseta, og vegna þess að hann hefur aflað sér víðtækrar reynslu í tengslum við yfirmannsstörfin hjá CIA. Hann er sagður hafa ferðast til meira en 30 landa og komið á fleiri en 40 bækistöðvar Bandaríkjahers og leyniþjónustunnar CIA.

Vitað var að Petraeus myndi hætta í Afganistan fyrir árslok og miklar vangaveltur hafa verið um það til hvaða starfa hann færi næst.

Petraeus hefur ekki starfað lengi sem yfirmaður herliðsins í Afganistan. Hann tók við því embætti í júní síðastliðnum en hafði áður verið yfirmaður fjölþjóðaherliðsins í Írak.

Petraeus heldur því fram að öflug sókn hersins, einkum gegn talibönum í sunnanverðu landinu, undanfarinn vetur hafi dregið mjög úr mætti þeirra. Bandaríkin stefna að því að hefja brottflutning herliðs síns frá Afganistan nú í sumar og búa jafnframt afganska herinn undir að taka við. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×