Sport

Anníe Mist er stolt af því að íslenska CrossFit æfingin „Dóttir“ sé orðin heimsflakkari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir fagnar góðum árangri með íslenska fánann.
Anníe Mist Þórisdóttir fagnar góðum árangri með íslenska fánann. Mynd/Instagram/anniethorisdottir

Þeir sem fylgdust vel með CrossFit mótinu í Dúbaí um helgina könnuðust örugglega við nafnið á níunda hluta keppninnar því hann bar nafnið „Dóttir“ og kepptu bæði karla og konur í henni.

Anníe Mist Þórisdóttir var ekki meðal keppenda í Dúbaí að þessu sinni en á mikið í þessari æfingaröð sem varð til í kringum CrossFit Reykjavík fyrr á þessu ári.

Á því móti, því fyrsta á Íslandi sem gaf farseðil á heimsleikana, var sérstök aukakeppni á milli Anníe Mistar og Katrínar Tönju Davíðsdóttir.

Anníe Mist hafði þar betur en hér fyrir neðan má sjá æfinguna sem heitir „Dóttir“ og keppt var í um helgina.







Sara Sigmundsdóttir og Eik Gylfadóttir kepptu báðar í „Dóttir“ í Dúbaí sem og Björgvin Karl Guðmundsson.

Sara varð í öðru sæti og Eik í tíunda sæti. Það var Ástralinn Jamie Greene sem vann þessa íslensku CrossFit grein.

Björgvin Karl náði sér ekki alveg á strik og endaði í sjöunda sæti í karlakeppninni í þessari mjög svo krefjandi grein.

Anníe Mist nýtti tækifærið þegar ljóst varð að „Dóttirin“ hennar var komin í útrás til Dúbaí og deildi gæsahúðamyndbandi frá uppákomunni í maí þegar keppt var í „Dóttir“ í fyrsta sinn.









Anníe Mist segir á Instagram síðu sinni að hún hafi verið mjög stolt af því „Dóttir“ var valin sem æfing á mótinu í Dúbaí og að hún hefði óskað að hún væri að taka á því með hinum stelpunum.

Í myndbandinu sem kom inn á Youtube síðu Anníe Mistar má sjá upphitun fyrir æfinguna í Laugardalshöllinni í maí 2019 og þar má sjá helstu afrekskonur Íslands í gegnum tíðina.

Eftir þessa dramatísku og flotta inngang má síðan sjá rosalega keppni á milli Anníe Mistar og Katrínar.

Jamie Greene kláraði æfinguna í Dúbaí á fimm mínútum og fjórum sekúndum og Sara kom næst aðeins þremur sekúndum á eftir henni.

Anníe Mist kláraði æfinguna á fjórum mínútum og tuttugu sekúndum í Laugardalshöllinni síðasta vor. Katrín var um sautján sekúndum á eftir henni og kláraði því líka á undir fimm mínútum.

Það má sjá þessa gæsahúðamyndband hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×