Í frétt BBC segir að hátíðin muni nú fara fram þann 14. mars, en ákveðið var að fresta hátíðinni vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita í Los Angeles og Kaliforníu. Fyrir lá að Grammy-hátíðin færi fram á netinu að þessu sinni, en þrátt fyrir það var samt ákveðið að fresta henni.
Beyoncé, Taylor Swift og Dua Lipa fengu flestar tilnefningar til verðlaunanna að þessu sinni, en greint var frá tilnefningunum í nóvember síðastliðinn.
Í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar segir að heilsa og öryggi fólks í geiranum skipti öllu máli og því hafi verið ákveðið að fresta hátíðinni.
Ekki liggur fyrir hvort að skemmtikrafturinn Trevor Noah, sem átti að vera kynnir á hátíðinni nú í lok janúar, verði kynnir á hátíðinni í mars.