Lífið

Má segja allt á netinu?

Tinni Sveinsson skrifar
Axel, Sigurlína og Bergur Ebbi.
Axel, Sigurlína og Bergur Ebbi.

Sigurlína Ingvarsdóttir tölvuleikjaframleiðandi og Axel Paul Gunnarsson, sérfræðingur hjá Ljósleiðaranum, settust niður með Bergi Ebba Benediktssyni í þættinum Framtíðin.

Bergur Ebbi fjallar um þær tækninýjungar sem eru handan við hornið og þær áskoranir sem standa í vegi fyrir innleiðingu þeirra í þáttunum Framtíðin, sem eru unnir af Orkuveitu Reykjavíkur. Hér má sjá annan þátt en alls verða þeir fjórir.

Meira eftirlit á netinu

Axel er sérfræðingur í viðskiptagreind hjá Ljósleiðaranum og Sigurlína er einn farsælasti tölvuleikjaframleiðandi okkar Íslendinga. Hún hefur framleitt leiki á borð við Star Wars: Battlefront og FIFA sem eru meðal vinsælustu tölvuleikja heims.

Þau ræddu nokkur af þeim fjölmörgu málefnum sem snúa að tækniþróun á internetinu, bæði tæknilegum og siðferðislegum. Til dæmis hvort það megi hreinlega segja allt á netinu og hvort stjórnvöld eða tæknirisarnir þurfi að fylgjast betur með því sem þar fer fram.

„Við höfum lýðræðislega kjörin stjórnvöld í hinum vestræna heimi. Við erum með matvælaeftirlit, við erum með umhverfiseftirlit. Við erum með stofnanir í samfélaginu sem eiga að tryggja það að við borðum ekki eitur og séum upplýst um það sem við erum að gera,“ segir Sigurlína.

„Við erum að átta okkur á því að villta vestur fjölmiðla- og samfélagsmiðlaheimsins verður að vera þannig að við getum treyst því. Annars verður algert niðurbrot og líkt og við sáum gerast í bandarískum stjórnmálum.“

Klippa: Framtíðin - Sigurlína Ingvarsdóttir og Axel Paul

Hraðar nettengingar á Íslandi forréttindi

Axel segir að Ísland sé einstakt að því leiti hve góðar nettengingar standi almenningi til boða. 

„Við erum ofboðslega heppin hérna á Íslandi því aðgengi okkar að ljósleiðara er það mesta í Evrópu. Það eru ótrúleg forréttindi að hafa svona hraðar tengingar. Við erum með næst hröðustu tengingar í heiminum að meðaltali. Í farneti líka, 4G og svo verðandi 5G, erum við nánast fremst í heiminum.“

Í þættinum ræða þau Sigurlína og Axel þessi mál og fleiri við Berg Ebba og rýna inn í framtíðina. Til dæmis hvernig sýndarveruleiki mun koma inn í líf okkar, hvort heilu hagkerfin verði byggð upp á rafmyntum og hvort stríð framtíðarinnar verði um gagnamagn. Hægt er að sjá lengri útgáfu af honum hér á YouTube.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.