Leikjavísir

Bætti kóða GTA og fær 1,3 milljónir frá framleiðendum leiksins vinsæla

Samúel Karl Ólason skrifar
GTA-Online-1200-1

Spilari sem uppgötvaði leið til að draga verulega úr þeim tíma sem það tekur að opna GTA Online í PC tölvum hefur fengið tíu þúsund dali frá tölvuleiknum vinsæla. Þá verða breytingar hans settar í leikinn á næstunni.

Í upphafi mars birti maður sem gengur undir nafninu tostercx samantekt á netinu um það hvernig honum hefði tekist að stytta hleðslutíma Grand Theft Auto Online um 70 prósent, með því að eiga við kóða leiksins.

Forsvarsmenn Rockstar Games, sem gerðu leikinn, hafa nú staðfest að aðferð tostercx virkar og verður hún færð inn í kóða leiksins með væntanlegri uppfærslu. Þá hefur fyrirtækið greitt tostercx tíu þúsund dali í verðlaun, samkvæmt frétt PC Gamer.

Það samsvarar um 1,3 milljónum króna.

Rockstar hefur ekki sagt nákvæmlega hve mikið þetta mun stytta hleðslutíma leiksins né hvenær von sé á uppfærslunni.

GTA V er einn vinsælasti tölvuleikur sem hefur verið framleiddur. Hann var upprunlega gefinn út árið 2013 og þá fyrir á Playstation 3 og Xbox 360. Hann var svo seinna meir gefinn út á PS4 og Xbox One og þar á eftir á PC.

Sjá einnig: Óstöðvandi velgengni GTA V

Til stendur að gefa leikinn út enn eina ferðina og þá fyrir PS5 og Xbox Series X. Rockstar gaf þar að auki fjölspilunarhluta leiksins sérstaklega út í fyrra.

Tekjur Rockstar vegna GTA V hafa verið gífurlega miklar og hefur fyrirtækið grætt á tá og fingri af fjölspilunarhluta leiksins, þar sem fólk eyðir raunverulegum peningum fyrir hluti í leiknum.

GTA V er dýrasti leikur sem hefur verið framleiddur en árið 2018 varð hann arðbærasta skemmtanaafurð sögunnar, jafnvel með tilliti til verðbólgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.