Einnig verður þeim sem nýttu sér úrræði til að fresta skattgreiðslum og eru með gjalddaga í sumar gert kleift að dreifa greiðslum yfir tveggja ára tímabil. Ríkisstjórnin vinnur auk þess að því að framlengja heimild einstaklinga til að úttektar á séreignasparnaði.
Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag þar sem kynntar voru hertar sóttvarnaraðgerðir í ljósi fjölgunar kórónuveirusmita.
Fela þær meðal annars í sér tíu manna samkomubann og lokun leikhúsa, kvikmyndahúsa, líkamsræktarstöðva, sundlauga og skemmtistaða næstu þrjár vikurnar. Bjarni sagði engan vafa á því að margir rekstraraðilar ættu eftir að verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna þessa en sagði mikilvægt að stíga fast til jarðar og stytta frekar gildistíma takmarkanna.
Hafði Bjarni sérstaklega orð á því að borið hafi á áhyggjum rekstraraðila sem hafi nýtt sér viss úrræði stjórnvalda og sáu fram á að þurfa að endurgreiða ríkinu áður en reksturinn hafi tekið við sér.
Með framlengingu á gildistíma laga um lokunargreiðslur og viðspyrnustyrki ætluðum rekstraraðilum sem hafa þurft að loka starfsemi eða orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu sé tryggt að úrræðin standi áfram til boða ef til frekari lokana komi. Að óbreyttu bjóðast lokunarstyrkir út júní og viðspyrnustyrkir út maí.
Mikilvægt að stíga strax inn í
Bjarni sagði það mjög miður að þurfa að grípa til hertra aðgerða. Það væri þó samdóma álit sérfræðinga að betra sé að stíga snemma inn í og afstýra frekari útbreiðslu veirunnar í staðinn fyrir að bíða og sitja þá uppi með meira íþyngjandi aðgerðir í lengri tíma.
„Þannig erum við að vonast til þess að með því að stíga af krafti inn í stöðuna sem við okkur blasir þá séum við að ná þessum markmiðum sem hafa alltaf verið leiðandi í okkar vinnu, að vernda bæði líf og heilsu fólks og lágmarka efnahagslegan skaða.“
Sautján greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Fjórtán þeirra sem greindust voru í sóttkví, en þrír utan sóttkvíar. Ekki hafa svo margir greinst innanlands á einum degi frá 30. nóvember.