Atvinnulíf

Íþróttanördinn í Landsbjörg viðurkennir stríðni barna sinna

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kristján Harðarson.
Kristján Harðarson. Vísir/Vilhelm

Nýr framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjörg, Kristján Harðarson, viðurkennir að hann sé algjör alæta á íþróttir. Svo mikill íþróttanörd er hann reyndar, að börnin gera að honum smá grín. Kristján skipuleggur verkefnin sín í lok hverrar vinnuviku en þessa dagana er annasamt í vinnunni; Ekki síst vegna eldgossins í Fagradalsfjalli.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég vakna alltaf klukkan hálf sjö á virkum dögum.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að fara í sturtu og síðan fæ ég mér góðan kaffibolla. Les blöðin og helstu fréttamiðla yfir kaffibolla númer tvö. Hef aldrei verið mikill morgunverðarmaður og borða yfirleitt ekkert fyrr en í hádeginu.“

Hvað er áhugamál númer #1?

„Áhugamálin eru mörg en tengjast flest útiveru og hreyfingu. Er algjör alæta á íþróttir og fylgist með öllum úrslitum í helstu íþróttagreinum.

Börnin eiga það til að gera grín að mér hvað þetta varðar með því að spurja um úrslit úr þriðju deild í knattspyrnu í Belgíu, ég er samt ekki það mikið íþróttanörd að ég fylgist með þeim úrslitum!

Nú í Covid höfum við konan tekið upp á því að ganga mikið, bæði í nær umhverfi okkar og í Heiðmörk. Langir göngutúrar með konunni eru mjög gefandi, bæði fyrir sál og líkama.“

Það hefur ekki farið framhjá neinum að sjálfboðaliðar Landsbjargar spila stórt hlutverk nú þegar gýs við Fagradalsfjall. En Kristján segir heilmikið starf unnið hjá Landsbjörg, til dæmis rekur Landsbjörg Fslysavarnaskóla sjómanna, björgunarskóla og er öflugt í forvarnastarfi.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Ég er að setja mig inn í nýtt starf sem framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar og þar er í mörg horn að líta.

Félagið rekur slysavarnaskóla sjómanna, björgunarskóla, er öflugt í forvarnastarfi, kemur að almannavörnum landsins eins og sést best á starfi sjálfboðaliða okkar í kringum eldgosið. 

Félagið er stórt og öflugt, við erum með um sexþúsund sjálfboðaliða um allt land í fjölmörgum slysavarnadeildum, björgunarsveitum og unglingadeildum.

Verkefni okkar eru um allt land, bæði á láði sem legi.

Skrifstofa félagsins sem ég veiti forstöðu þjónustar einingar félagsins og hinn almenna félagsmann. Einnig starfar skrifstofa félagsins að því að tryggja fjármögnun starfseminnar. Velvilji og stuðningur almennings, fyrirtækja og hins opinbera er ómetanlegur.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Nota yfirleitt seinnipart föstudags til að skipuleggja næstu viku og vinn svo með gróf mánaðarplön sem innihalda þá viðburði eða verkefni sem þarf að inna af hendi innan þess mánaðar.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég fer yfirleitt að sofa um eða eftir miðnætti. Er blanda af A og B manneskju, er að drolla fram eftir á kvöldin en á mjög auðvelt með að vakna á morgnana. Vakna yfirleitt áður en klukkan hringir. Leyfi mér að sofa aðeins lengur um helgar.“


Tengdar fréttir

Getur ekki lengur vaknað í rólegheitum á morgnana

Hera Grímsdóttir, forseti Iðn- og tæknifræðideildar við Háskólann í Reykjavík (HR), segir nýjasta fjölskyldumeðliminn, tíu vikna Bichon tík, vera að hrófla við allri hefðbundinni morgunrútínu. Heru finnst best að skipuleggja verkefni vikunnar á mánudögum og þar sem iðn- og tæknifræðideild HR hefur stækkað svo mikið frá því að hún var stofnuð fyrir tveimur árum, eru verkefni vikunnar æði mörg.

Öðruvísi prógram í grísavikum og vonlaus í hárgreiðslu dótturinnar

Reynir Örn Þrastarson, matreiðslumaður, sölufulltrúi hjá Heildsölu Ásbjörns Ólafssonar og lottókynnir, segir oft í gríni að vinnan hans felist í að trufla aðra kokka í sinni vinnu. Því starfið kallar á heimsóknir til viðskiptavina víðs vegar um landið. Í grísavikum er prógramið nokkuð frábrugðið því þá býr dóttir hans hjá honum. Sem segir hann algerlega vonlausan hárgreiðslumann.

Byrjar daginn á að knúsa eiginkonuna

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir heimilishundinn Heru ekki hafa húmor fyrir því að bíða of lengi eftir morgunmatnum. Hann byrjar daginn á því að knúsa konuna sína en þessa dagana er í mörgu að snúast því framundan er stækkun Ölgerðarinnar.  

Er vel gift, elskar útivist og segir skapandi nálgun mikilvæga

Þessa dagana er Birna Bragadóttir, forstöðukona Elliðaárstöðvar, að setja sig inn í nýtt starf hjá OR. Í það starf var hún nýverið valin úr hópi rúmlega 170 umsækjenda til að byggja upp þjónustu og upplifun í Elliðarárdal. Birna segir morgunverkum fara fækkandi með hækkandi aldri barna en segist vel gift og því sjái eiginmaðurinn um yngsta soninn á meðan hún stundar helsta áhugamálið: Hreyfingu og útivist.

,,Að vinna á Stöð 2 á upphafsárunum var algerlega mergjað“

Það urðu allir starfsmenn á upphafsárum Stöðvar 2 að frumkvöðlum segir Jón Örn Guðbjartsson, markaðs- og samskiptastjóri Háskóla Íslands, þegar hann rifjar upp skemmtileg fyrri störf. Í þeirri upprifjun skýrir hann líka út hvers vegna hann var kallaður kommúnistinn þegar hann vann í frystihúsinu á Þingeyri. Við Valdimar son sinn ræðir hann um ofurhetjur og með Krumma hundinum sínum hlustar hann á hljóðbækur. Í vinnunni stendur yfir undirbúningur að stafrænu stuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×