Körfubolti

Marshall Nelson puttabrotinn og spilar ekki meira

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Daníel Guðni staðfesti þetta í kvöld.
Daníel Guðni staðfesti þetta í kvöld.

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindvíkinga var að vonum ekki sáttur við tapið gegn Stjörnunni í kvöld.

„Já við áttum bara erfitt með að koma boltanum í körfuna í fjórða leikhluta. Það var vesen. Ég er samt sáttur við frammistöðuna varnarlega. Menn voru að leggja mikið á sig. Svo datt þetta bara Stjörnumegin í kvöld en ef við hefðum hitt úr þessum vítum þá hefðum við farið í framlengingu,“ sagði Daníel.

Grindvíkingar tóku fast á Stjörnumönnum í upphafi en Daníel vildi ekki meina að það hefði endilega verið sérstakur partur af leikplaninu.

„Það var ekkert sérstaklega planið. Bara mæta til leiks. Spila almennilegan körfubolta því þessir síðustu þrír leikhlutar á móti Njarðvík náttúrulega voru ekki til staðar. Sérstaklega ekki varðandi orku eða að leggja á sig. Við mættum til leiks í kvöld í fjóra leikhluta en því miður vantaði okkur smá svona, að setja boltann í körfuna.”

Marshall Nelson, einn besti leikmaður Grindvíkinga var ekki með og verður að sögn þjálfarans ekki meira með í vor.

„Hann er puttabrotinn,“ sagði Daníel. Það er mikið áfall fyrir Grindvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×