Lífið

Útskúfunin hættulegri þessum einstaklingum en fitan

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Erna Kristín Stefánsdóttir gaf út bókina Fullkomlega ófullkomin og barnabókina Ég vel mig.
Erna Kristín Stefánsdóttir gaf út bókina Fullkomlega ófullkomin og barnabókina Ég vel mig. Youtube

„Ég er komin á þann stað, að ef þú ætlar ekki að fræða þig og ef þú ætlar ekki að gera betur, nennirðu að sleppa því að tala. Bara plís,“ segir Erna Kristín Stefánsdóttir um fitufordóma.

„Hvort sem þér líkar það betur eða verr, þá ertu að beita ofbeldi. Meðvitað eða ekki, ertu að beita ofbeldi.“

Erna er guðfræðingur, samfélagsmiðlastjarna, höfundur tveggja bóka og mikil talskona líkamsvirðingar. Hún er gestur í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Eigin konur og hvetur þar fólk til að fræða sig um fitufordóma og gera betur.

Grannir óheilbrigðir líkamar samþykktir

„Hvað varðar óheilbrigði hjá feitu fólki, þá er jaðarsetning, niðurlæging, útskúfun, skert heilbrigðiskerfi miklu meiri ástæða fyrir óheilbrigði en nokkurn tíman fitan. Pælið bara aðeins í því.“

Hún segir að á hverjum degi sé fólk beitt ofbeldi fyrir útlitið og verði fyrir aðkasti.

„Maður skilur ógeðslega vel þetta fólk sem velur að fara í fitusog eða annars konar inngrip út af því að það fær ekki að lifa fyrr en það verður samþykkt. Það fær að lifa í grönnum og óheilbrigðum líkama, mjög friðsælu lífi. En ekki feitum og heilbrigðum.“

Með sjálfsvígshugsanir út af jaðarsetningu

„Samfélagið er hannað gegn þessu fólki,“ útskýrir Erna í þættinum.

„Ef þú ætlar ekki að leyfa fólki að vera óheilbrigt og hamingjusamt, óháð stærð, skammastu þín. Það er ekki þitt. Á meðan við leyfum fólki að fá rými til að fagna sér, er ekki líklegra að það vilji leita í almennt heilbrigði?“

Í þættinum fjalla þær meðal annars um fitufordóma sem oft eru settir í búning umhyggju, mýtur um feitt fólk og heilbrigði, líkamsímynd og hvernig samfélagið kenni okkur að líta á fitu sem óvin.

„Ég er að horfa á fólk sem ég elska í niðurbroti allan daginn alla daga út af því að fólk eins og við erum að drulla upp bak, við erum bara að ýta þeim út á jaðarinn. Fólk er komið með sjálfsvígshugsanir og við höfum áhyggjur af því að þau séu að fara að deyja út af fitu. Þau eru að deyja út af okkur. Við erum ástæðan.“

Erna gagnrýnir meðal annars það viðmót sem feitir einstaklingar fái innan heilbrigðiskerfisins. Þær tala einnig um ummæli Everts eiganda CrossFit Reykjavík í þættinum 24/7 með Begga Ólafs, en viðtalið vakti mikla athygli hér á Vísi.

Þátturinn er aðgengilegur á Spotify og öðrum helstu efnisveitum og má einnig sjá hann í spilaranum hér fyrir neðan.

Líkamsvirðing í kennsluskrá

Erna Kristín hefur í nógu að snúast þessa dagana en hún er að undirbúa fyrirlestur sem verður frítt með frjálsum framlögum. Fyrirlesturinn verður nánar auglýstur á hennar samfélagsmiðlum, Erna Kristín á Instagram og Ernuland á Facebook.

Erna Kristín hefur flakkað á milli hópa og skóla á öllu landinu til að fræða einstaklinga á öllum aldri um jákvæða líkamsímynd. Hún hefur nú einnig farið lengra með málið og sent bréf á Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Í samtali við Vísi segir Erna að hún bíði eftir svari en bréfið fjallaði um þá hugmynd að fá jákvæða líkamsímynd og líkamsvirðingu inn í menntakerfið.


Tengdar fréttir

„Ég er með fitufordóma“

„Ég er alveg viss um það að fyrr en síðar þá verði sykur hreinlega bara bannaður,“ segir Crossfit þjálfarinn Evert Víglundsson.

„Málefnið skiptir meira máli og ég er ekki yfir gagnrýni hafin“

„Helsti misskilningurinn er þó sá að margir halda að með jákvæðri líkamsímynd leiti fólk í óheilbrigði. Það er ekki rétt en gott er að muna að heilbrigði annara kemur okkur almennt ekkert við,“ segir Erna Kristín Stefánsdóttir rithöfundur, fyrirlesari og aðgerðarsinni í viðtali við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.