Íslenski boltinn

Sigurvegarar síðasta sumars: Ólafur Örn fór í örast allra í tæklingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Örn Eyjólfsson á ferðinni með boltann í leik HK og Breiðabliks í Kórnum í fyrra.
Ólafur Örn Eyjólfsson á ferðinni með boltann í leik HK og Breiðabliks í Kórnum í fyrra. Vísir/Bára

Það var fjör í kringum Ólaf Örn Eyjólfsson í Pepsi Max deild karla síðasta sumar.

Pepsi Max deild karla í fótbolta hefst á föstudaginn kemur en fram að því ætlum við á Vísi að skoða nokkra athyglisverða tölfræðilista frá því á síðasta tímabili.

HK-ingurinn Ólafur Örn Eyjólfsson hikaði ekki við að fara í tæklingar í Pepsi Max deild karla síðasta sumar. Þegar upp var staðið þá leið styðstur tími á milli tæklinga hjá Ólafi Erni af öllum leikmönnum deildarinnar.

Ólafur Örn fór alls í 54 tæklingar á 491 mínútu samkvæmt skráningu Wyscout sem þýðir að hann fór 9,9 sinnum í tæklingar á hverjar níutíu mínútur sem hann spilaði.

Ólafur toppaði algjörlega í 1-0 tapleik á móti verðandi Íslandsmeisturum í Val í lok ágúst þegar hann fór alls í sextán tæklingar. Ólafur vann reyndar aðeins bara sjö af þessum sextán tæklingum í Valsleiknum og vann í heildina aðeins 46,3 prósent tæklinga sem hann fór í.

Næstu á eftir Ólafi Erni var Stjörnumaðurinn Alex Þór Hauksson sem fór í 9,66 tæklingar á hverjar níutíu mínútu. Alex Þór fór þó í mun fleiri tæklingar í heildina eða alls 153 og vann líka 54,9 prósent þeirra. Þriðji var síðan Gróttumaðurinn Óskar Jónsson.

Fjölnismenn fóru annars í flestar tæklingar og voru þar með mikla yfirburði. Grafarvogspiltar fóru alls í 1342 tæklingar en í öðru sæti var Fylkir með 1210 tæklingar.

HK-menn fóru aftur á móti í fæstar tæklingar allra liða eða 1009 talsins. Einu minna en ÍA. Ólafur Örn Eyjólfsson spilaði bara þrjátíu prósent af mínútum í boði því annars hefðu þær eflaust verið miklu fleiri.

Leikmenn sem fóru örast í tæklingar í Pepsi Max deild karla 2020:

  • 1. Ólafur Örn Eyjólfsson, HK 9,9 sinnum á hverjar 90 mínútur
  • 2. Alex Þór Hauksson, Stjörnunni 9,66 sinnum
  • 3. Óskar Jónsson, Gróttu 9,55
  • 4. Péter Zachán, Fjölni 9,33
  • 5. Nikulás Val Gunnarsson, Fylki 9,31
  • 6. Haukur Páll Sigurðsson, Val 9,20
  • 7. Aron Bjarnason, Val 9,07
  • 8. Oliver Sigurjónsson, Breiðabliki 9,01
  • 9. Valgeir Valgeirsson, HK 8,99
  • 10. Ragnar Bragi Sveinsson, Fylki 8,88



Vísir hefur skoðað tölfræði Wyscout úr Pepsi Max deild karla í fótbolta síðasta sumar og komist að því hvaða menn sköruðu fram úr í deildinni í sérstökum tölfræðiþáttum.

Í síðustu vikunni fyrir nýtt Íslandsmót er nú ætlunin að skoða eitthvað af þessum topplistum sem fá flestir vanalega ekki mikla athygli í fjölmiðlum en eru mikilvægur þáttur í baráttunni inn á vellinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×